Þegar Hrafnseyrarheiði opnaðist á vorin lá Vestfjarðavegur um hlaðið á Þingeyri þangað til hann lokaðist aftur, venjulega fyrir jól. En með Dýrafjarðargöngum er leiðin greiðfær nánast allt árið. Þó er sú breyting að Þingeyri er ekki lengur við aðalveginn, þangað er níu kílómetra aukakrókur frá Dýrafjarðarbrú, en fjallað var um þessa breyttu stöðu í fréttum Stöðvar 2.

„Það eru margir búnir að segja það að þegar keyrt er hérna framhjá þá nenni fólk ekki að koma út á Þingeyri. Við verðum svona, eins og þú segir, einhverskonar botnlangi, sem menn kannski nenna ekki að æða út á.
Ég er alveg sannfærður um að ferðafólk kemur í hrönnum. Við höfum svo margt upp á að bjóða,“ segir Sigmundur Fríðar Þórðarson, formaður íbúasamtaka Þingeyrar.
„Ég sé bara tækifæri með þessum göngum. Þau hefðu bara þurft að vera komin aðeins fyrr, miðað við þessa landsbyggðarþróun. En bara tækifæri,“ segir Erna Höskuldsdóttir, skólastjóri grunn- og leikskólans á Þingeyri.

„Við verðum bara girnilegri staðir til þess að heimsækja og líka girnilegri staðir til þess að búa á. Því að hérna eru góðir skólar og dásamlegt að ala upp börn líka,“ segir Erna.
Formaður íbúasamtakanna spáir því að umferðin um vesturleiðina snaraukist. Þingeyri hafi margt að bjóða.
„Að fara fyrir nes, það er frægt. Vegurinn hans Elísar Kjaran, hann er frábær, og við notum hann óspart.
Nota svo Hrafnseyrarheiðina. Þarna getum við bætt við allskonar leiðum. Hæsta fjall Vestfjarða. Við erum bara með ómæld tækifæri fyrir ferðamenn,“ segir Sigmundur.
Í þættinum Um land allt er fjallað um breytt landslag og ný tækifæri sem blasa við Vestfirðingum með Dýrafjarðargöngum og öðrum væntanlegum samgöngubótum.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: