Þrettán Evrópusambandsríki, samkvæmt talningu BBC, hafa hætt notkun bóluefnisins vegna tilkynninga um blóðtappa hjá fólki eftir bólusetningar. Ísland og Noregur hafa einnig hætt notkun bóluefnisins tímabundið.
Emer Cooke, yfirmaður EMA, sagði á blaðamannafundi í dag að rannsókn stofnunarinnar hefði leitt í ljós að ekki væri hægt að útiloka tengsl á milli blóðtappa og bóluefnisins. Hins vegar þyrfti að rannsaka það frekar og ítrekaði hún að bóluefnið væri öruggt og virkaði gegn Covid-19 í minnst 60 prósenta tilfella.
Yfirmaður WHO í Evrópu hvatti Evrópuríki til þess að halda notkun bóluefnisins áfram í dag.
Dr Sabina Strauss, yfirmaður bóluefnaöryggisdeildar EMA, sagði engar vísbendingar um galla eða gæðaskort hafa fundist við rannsókn stofnunarinnar. Einstaka tilfelli blóðtappa hefðu verið skoðuð og heilt yfir væru ekki meiri líkur á blóðtappa eftir bólusetningu.
Þvert á móti væru vísbendingar um andstæðuna. Að líkur á blóðtappa minnkuðu.
Strauss sagði hins vegar að í einstaka tilfellum hefðu fundist vísbendingar um blóðstorknun sem hefði dregið blóð frá heila viðkomandi. Þó væri útlit fyrir að það tengist undirliggjandi skorti á storknunarefnum í blóði. Þessi tilfelli væru þó einkar sjaldgæf eða um 1 af hverjum tuttugu milljónum.
Á þessari stundu sagði hún að engar vísbendingar væru um að bóluefnið sjálft hefði valdið þessu.