Í umsögn eftirlitsins um slysið segir að gleymst hafi að steypa súlu í rétta hæð til að gefa nægan stuðning til að halda holplötum uppi, en holplötueiningar á þaki annarar hæðar í austurhluta hússins hrundu niður ásamt tveimur starfsmönnum og lést annar þeirra á slysstað.
Fallhæðin var á áttunda metra.

Vinnueftirlitið segir í umsögninni að meira álag hafi verið á bráðabirgðastoðum en þeim var ætlað og að niðurröðun holplatna hafi ekki verið í samræmi við leiðbeiningar framleiðanda. Þá hafi leiðbeiningum ekki verið fylgt við reisingu burðarvirkis.
Enn fremur segir að fallvarnarbelti hafi ekki verið notuð og að öryggis- og heilbrigðisáætlun hafi ekki verið á slysstað og hún hafi mögulega ekki verið kynnt starfsmönnum á fullnægjandi hátt.

Mat Vinnueftirlitsins er að til að koma í veg fyrir sambærileg slys þurfi að gæta vel að samskiptum milli samstarfsmanna um framvindu verksins og frangang verkþátta svo allir sem starfi við framkvæmd þeirra séu þeim kunnugir. Atvinnurekanda beri að sjá til þess að áhættumat liggi fyrir áður en störf hefjast við áhættusama verkþætti líkt og í þessu máli.
Áhættumat starfa hjá Inga & Son ehf. hafi verið ófullnægjandi með tilliti til öryggis og heilsu starfsmanna á verkstað, segir í umsögninni.
Skýrslu vinnueftirlitsins í heild má lesa hér að neðan (PDF).