Innlent

Sigurður Ingi segir viðbrögð við nýju loftferðafrumvarpi „storm í vatnsglasi“

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Ráðherra segir að enginn eigi að hafa vald til að taka einhliða ákvörðun um framtíð flugvalla.
Ráðherra segir að enginn eigi að hafa vald til að taka einhliða ákvörðun um framtíð flugvalla.

Umræðan um nýtt frumvarp um loftferðir er „stormur í vatnsglasi“, segir Sigurður Ingi Jóhansson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra. Hann segir umrædda löggjöf nú þegar til staðar; aðeins sé verið að skerpa á ákvæðum sem fyrir eru.

Kjarninn greindi frá því á miðvikudag að Sigurður Ingi hefði deild eftirfarandi ummælum á Instagram:

„Mælti fyrir frumvarpi um loftferðir. Fjallar m.a. um skipulagsreglur sem ráðherra getur sett sem ætlað er að ganga framar skipulagsáætlunum sveitarfélaga (svæðis-, aðal- og deiliskipulag). Frá því að skipulagsreglur flugvallar taka gildi eru sveitarfélög bundin af efni þeirra.“

Kjarninn leitaði viðbragða hjá Sigurborgu Ósk Haraldsdóttur, borgarfulltrúa Pírata og formanns skipulags- og samgönguráðs Reykjarvíkurborgar, sem sagði frumvarpið „galið“ hvað þetta snerti.

„Við fyrstu sýn slær það mig sem til­raun ráð­herra til að svipta sveit­ar­fé­lög á Íslandi skipu­lags­vald­inu og ekki annað hægt en að for­dæma það,“ sagði hún í skriflegu svari. Frumvarpið væri með öllu óásættanlegt.

Sigurður Ingi segir hins vegar ekki um neina breytingu að ræða, heldur væri verið að skerpa á því að ákveðið samráð þyrfti að eiga sér stað milli aðila, líkt og væri á Keflavíkurvelli.

Spurður að loknum ríkisstjórnarfundi í morgun sagði hann að enginn ætti að hafa vald til að geta tekið einhliða ákvörðun um framtíð flugvalla og umræðan væri stormur í vatnsglasi. „Þessi löggjöf er fyrir hendi í dag,“ sagði hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×