Körfubolti

„Missti töluna“ og vissi ekki að hann gat náð metinu hjá Boston Celtics

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jaylen Brown var sjóðandi heitur í sigri Boston Celtics í nótt.
Jaylen Brown var sjóðandi heitur í sigri Boston Celtics í nótt. AP/Michael Dwyer

Lið Los Angeles Lakers byrjar ekki vel án LeBrons James og Jaylen Brown var með skotsýningu í sigri Boston Celtics í NBA deildinni í körfubolta í nótt. Russell Westbrook og Nikola Jokic voru báðir með þrennur í tapleikjum. Chris Paul gaf stoðsendingu númer tíu þúsund í sigri Phoenix Suns.

Jaylen Brown átti stórleik þegar Boston Celtics endaði þriggja leikja taphrinu með 112-96 sigri á Orlando Magic. Brown skoraði 34 stig en hann setti niður tíu þriggja stiga körfur í leiknum. Jayson Tatum var síðan með 23 stig.

Brown hitti úr 10 af 18 þriggja stiga skotum sínum og var einum þristi frá því að jafna félagsmet Marcus Smart sem hitti einu sinni úr 11 af 19 þriggja stiga skotum sínum í leik með Boston. Nikola Vucevic var með 22 stig og 13 fráköst fyrir Orlando.

Boston liðið skoraði alls 23 þrista í leiknum. „Ég missti töluna um tíma. Ég vildi óska þess að einhver hefði sagt mér frá metinu. Ég hefði tekið fimm eða sex skot til að vera öruggur með að ná metinu hans Marcus,“ sagði Jaylen Brown léttur eftir leikinn.

Devin Booker og Deandre Ayton voru báðir með 26 stig og Chris Paul bætti við þrennu (11 stig, 10 fráköst og 13 stoðsendingar) þegar Phoenix Suns vann 111-94 sigur á Los Angeles Lakers. Suns menn komust þarn með leik á undan Lakers í öðru sæti Vesturdeildarinnar

Lakers liðið lék þarna sinn fyrsta leik eftir að liðið missti LeBron James í alvarleg ökklameiðsli og byrjaði ekki vel. Montrezl Harrell var stigahæstur með 23 stig en skoraði 22 stig.

Chris Paul gaf sína tíu þúsundustu stoðsendingu á ferlinum í leiknum og var aðeins sjötti leikmaðurinn í sögu NBA deildarinnar sem nær því.

Luka Doncic skoraði 37 stig í þremur leikhlutum þegar Dallas Mavericks vann 132-92 útisigur á Portland Trail Blazers. Doncic lék aðeins í 29 mínútur en hann hitti úr 8 af 9 þriggja stiga skotum sínum. Josh Richardson var með 21 stig fyrir Dallas en hjá Portland var Damian Lillard atkvæðamestur með 19 stig.

Kyrie Irving var með 28 stig og James Harden bætti við 26 stigum þegar Brooklyn Nets vann 113-106 sigur á Washington Wizards í fyrsta leik Blake Griffin með Nets liðinu.

Blake Griffin skoraði eina körfu þegar hann tróð boltanum í körfuna en það var hans fyrsta troðsla síðan 2019. Russell Westbrook var með þrennu hjá Wizards, skoraði 29 stig, tók 13 fráköst og gaf 13 stoðsendingar.

Houston Rockets tapaði tuttugasta leiknum í röð þegar liðið lá 114-112 á móti Oklahoma City Thunder á heimavelli. Þetta er níunda versta taphrinan í sögu NBA og það lengsta síðan að Philadelphia 76ers tapaði 28 leikjum í röð árið 2015.

Brandon Ingram og Zion Williamson voru báðir með 30 stig þegar New Orleans Pelicans vann 113-108 sigur á Denver Nuggets en það dugði ekki heimamönnum í Denver að Nikola Jokic var með þrennu, 29 stig, 10 fráköst og 10 stoðsendingar. Þetta var ellefta þrenna Jokic á tímabilinu.

Tobias Harris tryggði toppliði Philadelphia 76ers 101-100 sigur á New York Knicks þegar 5,3 sekúndur voru eftir af framlengingu með því að setja niður tvö vítaskot. Þetta var áttundi sigur 76ers liðsins í síðustu tíu leikjum og liðið er áfram í efsta sæti Austurdeildarinnar.

Úrslitin í NBA-deildinnni í nótt:

  • Boston Celtics - Orlando Magic 112-96
  • Miami Heat - Indiana Pacers 106-109
  • Houston Rockets - Oklahoma City Thunder 112-114
  • Denver Nuggets - New Orleans Pelicans 108-113
  • Brooklyn Nets - Washington Wizards 113-106
  • Cleveland Cavaliers - Toronto Raptors 116-105
  • Detroit Pistons - Chicago Bulls 86-100
  • New York Knicks - Philadelphia 76ers 100-101
  • Phoenix Suns - Los Angeles Lakers 111-94
  • Portland Trail Blazers - Dallas Mavericks 92-132
NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×