Skoðun

Hver græðir?

Oddný G. Harðardóttir skrifar

Eitt af einkennum hægristjórna er að ráðast að eftirlitsstofnunum og veikja þá aðila sem standa vörð um almannahag með öllum ráðum. Núverandi ríkisstjórn er þar engin undantekning.

Áður en að Kórónuveiran skall á voru þau búin að gera Fjármálaeftirlitið að deild í Seðlabankanum og í kjölfarið tóku þau til við að veikja Samkeppniseftirlitið. Við þingmenn Samfylkingarinnar mótmæltum hvoru tveggja og náðum fram umbótum þó að eftir standi breytingar sem ástæða er til að hafa áhyggjur af og þarfnast endurmats hið fyrsta.

Neytendastofa

Og nú síðast ræðst ríkisstjórnin til atlögu við neytendur. Til stendur að gera Neytendastofu að örstofnun með lagasetningu þann 16. mars. Flutt eru verkefni frá stofnuninni og gefin óljós skilaboð í greinargerð frumvarpsins um að leggja eigi Neytendastofu að fullu niður. Engin vönduð rannsókn eða greining fór fram á neytendamálum eða verkefnum Neytendastofu áður en frumvarpið var lagt fram. Engin hlutlaus úttekt fór fram á starfsemi Neytendastofu eða flutningi verkefna. Íslenskir neytendur hafa löngum verið í veikri stöðu vegna yfirburðastöðu framleiðenda og seljenda vöru og þjónustu og væri full ástæða til að styrkja stöðu þeirra í stað þess að veikja hana.

Hin norrænu ríkin eru með öfluga neytendavernd og mættu stjórnvöld líta þangað eftir fyrirmyndum og skoða vel kosti og galla embættis Umboðsmanns neytenda sem hefur valdheimildir. Neytendaréttarsvið gæti verið undir slíku embætti svo dæmi sé tekið en það svið er það eina sem eftir stendur sem verkefni Neytendastofu. Lögin sem samþykkt voru 16. mars verða til þess m.a. að Húsnæðis- og mannvirkjastofnun mun sinna verkefnum sem eru mörg stór og ólík og með þeim lítil samlegð. Stofnunin veitir húsnæðislán, hefur umsjón með framkvæmd löggildingareftirlits með mælitækjum fyrirtækja og hefur eftirlit með leikföngum og snuðum svo dæmi séu tekin. Stefna stjórnvalda virðist vera að skera niður fjármuni til neytendamála og fækka stofnunum, allt í nafni hagræðingar. Tilfærslunum fylgir augljós hætta á að neytendamálin tvístrist um kerfið og eftirlitið minnki með tilheyrandi skaða fyrir neytendur.

Skattrannsóknarstjóri

Og áfram skal haldið. Á dagskrá Alþingis á þriðjudaginn 23. mars, er frumvarp um að leggja embætti skattrannsóknarstjóra niður sem sjálfstæða stofnun og gera skattrannsóknir að deild hjá Skattinum.

Til að vinna gegn skattaundanskotum höfum við í Samfylkingunni talað fyrir eflingu skattrannsókna og auknu sjálfstæði skattrannsóknarstjóra. Slíkt mundi skila sér margfalt til baka í auknum skatttekjum. Þegar stór og flókin mál koma upp, líkt og rannsókn á Panamaskjölunum og fjárfestingarleið Seðlabankans hefur embættið liðið fyrir fjárskort og manneklu. Ein leið til að halda embætti niðri er fjársvelti, önnur leið er hreinlega að leggja embættið niður eins og núverandi ríkisstjórn vill gera. Með frumvarpinu eru einnig lagðar til breytingar í þá veru að sekta í stað þess að ákæra í leiri málum. Með því er verið að milda til muna mat á alvarleika brota og gera refsilaus brot gegn skattalögum sem nú sæta refsingum. Og rökin virðast vera að afkastageta hjá ákæruvaldi sé ekki nægileg. Þau rök duga alls ekki fyrir slíkum breytingum.

Í meira en aldarfjórðung hefur reglulega verið vakin athygli á nauðsyn þess að uppræta augljósan tvíverknað í rannsókn á skattsvikum og efnahagsbrotum og útgáfu ákæra á því sviði, jafnt í þingmálum sem og mörgum skýrslum og greiningum. Fyrirkomulagið hér á landi er seinvirkt og kostnaðarsamt og hvorki hinu opinbera né sakborningum í hag. Með löngum málsmeðferðartíma vex auk þess hættan á að réttarspjöll verði sem leiði til mildari dóma en ella eða jafnvel sýknu eins og dæmi eru um.

Í stað þess að sameina embætti skattrannsóknarstjóra og ríkisskattstjóra væri mun árangurríkara og skilvirkara í alvarlegum skattalagabrotum, að efla skattrannsóknir og veita skattrannsóknarstjóra ákæruvald í þeim málum sem embættið rannsakar. Þannig mætti koma í veg fyrir tvíverknað, stuðla að styttri málsmeðferðartíma og skapa um leið betri samfellu í rannsókn alvarlegra skattalagabrota.

Sakamál vegna skattalagabrota krefjast sérþekkingar og sérhæfingar, bæði hvað varðar rannsóknir og saksókn. Það stuðlar að skilvirkni að einn og sami aðilinn annist hvort tveggja. Slík tilhögun er þekkt í öðrum löndum, þar á meðal í Þýskalandi.

Ógjörningur er að koma auga á hvernig hagur almennings er varinn með því að draga tennurnar úr skattrannsóknum hér á landi. Hver græðir á því?

Höfundur er formaður þingflokks Samfylkingarinnar.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×