Refsiaðgerðirnar gegn kínversku embættismönnunum eru þær fyrstu sem Evrópusambandið grípur til gegn kínverskum ráðamönnum vegna mannréttindabrota frá því að kommúnistastjórnin barði niður mótmæli á Torgi hins himneska friðar árið 1989.
Mannréttindasamtök telja að kínversk stjórnvöld hafi sent fleiri en milljón Úígúra og fólk sem tilheyrir öðrum minnihlutahópum sem aðhyllist íslam í sérstakar fangabúðir í Xinjiang-héraði í norðvesturhluta landsins.
Ásakanir eru um að þar séu konur gerðar ófrjóar og börn skilin frá foreldrum sínum. Vitni hafa lýst nauðungarvinnu, kerfisbundnum nauðgunum, kynferðismisnotkun og pyntingum á föngum þar fyrir breska ríkisútvarpinu BBC. Kínversk stjórnvöld halda því fram að í búðunum fari fram „endurmenntun“ sem eigi að uppræta hryðjuverk.
Eignir embættismannanna í Evrópu eru frystar og þeim bannað að ferðast til sambandsins samkvæmt refsiaðgerðunum. Kínversk stjórnvöld brugðust við með eigin refsiaðgerðum gegn evrópskum embættismönnum.
Hörðustu aðgerðir frá valdaráninu í Búrma
Þá samþykkti ESB refsiaðgerðir gegn ellefu einstaklingum sem tóku þátt í valdaráninu í Búrma, einnig þekkt sem Mjanmar, 1. febrúar. Vopnasölubann var þegar í gildi og nokkrir meðlimir herforingjastjórnarinnar hafa verið beittir þvingunum frá 2018 en Reuters-fréttastofan segir að aðgerðirnar nú séu þær hörðustu frá valdaráninu.
Josep Borrell, utanríkismálastjóri sambandsins, staðfesti að refsiaðgerðirnar verði lagðar á þegar hann mætti til fundar utanríkisráðherra aðildarríkjanna í Brussel í dag. Búist er við að einstaklingarnir verði nafngreindir þegar greint verður opinberlega frá því hversu aðgerðirnar felast.
Herforingjastjórnin rændi lýðræðislega kjörna ríkisstjórn landsins völdum í byrjun febrúar. Síðan þá hefur stjórnin látið skjóta fjölda mótmælenda á götum landsins.