Víða er spáð átta til fimmtán metrum á sekúndum síðdegis en fimmtán til tuttugu vestanlands og átján til 23 norðvestantil í kvöld.
Gefnar hafa verið út gular viðvaranir á Breiðafjarðarsvæðinu, Vestfjörðum, Ströndum og Norðurlandi vestra, Norðurlandi eystra, Austurlandi að Glettingi og Suðausturlandi. Taka þær gildi frá hádegi í dag og gilda sumar fram á annað kvöld.
Í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofunnar segir að í nótt og á morgun dragi heldur úr vindi og ofankomu og létti til sunnan heiða, en hvessi þess í stað töluvert á Suðausturlandi. Kólnar jafnframt í veðri og líkur á talsverðu frosti á öllu landinu annað kvöld.
Þá segir að ekki sé annað að sjá en vetrarríki fram yfir helgi og jafn vel lengur.

Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á föstudag: Norðlæg átt, 13-20 m/s með snjókomu á N-veður landinu, hvassast við A-ströndina, en dregur úr vindi og ofankomu seinni partinn. Él sunnan heiða framan af degi, en léttir síðan til. Frost 0 til 10 stig minnst með SA-ströndinni.
Á laugardag: Norðan 8-15 m/s og él eða snjókoma N-til, en bjartviðri syðra. Gengur í austan- og norðaustanhvassviðri með snjókomu S-lands um kvöldið. Frost 1 til 10 stig, minnst syðst.
Á sunnudag (pálmasunnudagur): Stíf norðanátt með snjókomu eða slyddu, en úrkomulítið V-lands. Hlýnandi veður.
Á mánudag og þriðjudag: Útlit fyrir ákveðna norðanátt með snjókomu eða éljagangi, en lengst af bjartviðri syðra. Víða vægt frost.
Á miðvikudag: Líklega vestanátt með skúrum eða slydduéljum V-til, en annars bjart og heldur hlýnandi veður.