Vika er frá því að um 350 börn og um fimmtíu starfsmenn Fossvogsskóla hófu störf í Korpuskóla í Grafarvogi til þess að flýja myglu í húsnæðinu í Fossvoginum. Í bréfi sem Ingibjörg Ýr Pálmadóttir, skólastjóri Fossvogsskóla, sendi foreldrum í dag kemur fram að við úttekt verkfræðistofunnar Eflu hafi fundist mygla og rakaskemmdir í Korpuskóla.
Af átján sýnum sem voru tekin úr byggingarefnum hafi sjö greinst með mygluvexti en ellefu án myglu. Beðið sé eftir niðurstöðum úr sex sýnum til viðbótar.
„Nú þegar hefur hluta af skemmdu byggingarefni verið skipt út og verður áfram unnið að viðgerðum, út frá athugasemdum EFLU, yfir páskana til þess að klára það sem snýr að íverurými nemenda og starfsfólks. Allt rakaskemmt og myglað efni verður fjarlægt og rakaupptök stöðvuð áður en skólastarf hefst að nýju eftir páskafrí og þeim svæðum þar sem ekki tekst að ljúka viðgerðum verður lokað,“ segir í bréfinu.
Ljóst sé þó að ekki náist að ljúka öllum viðgerðum sem nauðsynlegar eru og því verði lögð áhersla á það sem brýnast er að gera til að tryggja heilnæmi í skólahúsnæðinu.
Skólastjórinn segir að á þriðjudaginn eftir páska muni Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur taka út húsnæðið og fulltrúar EFLU verði á staðnum. Þá verði boðaðir upplýsingafundir vegna framkvæmdanna með þátttöku EFLU, bæði með starfsfólki skólans og foreldrum barna.
Í tilkynningu frá Reykjavíkurborg kemur fram að unnið verði að viðgerðum á Korpuskóla yfir páskana. Framkvæmdir muni halda áfram eftir páska við þau atriði sem EFLA telur hægt að vinna á meðan starfsemi er í húsnæðinu og að lokum verði farið í frekari viðgerðir í sumar sem eingöngu sé hægt að vinna eftir að skólaárinu lýkur.