Fótbolti

Blind þarf að fara í að­gerð en vonast til að ná EM

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Það var strax ljóst að eitthvað slæmt hafði gerst eftir að Blind festi takkana í gervigrasinu er Holland lagði Gíbraltar 7-0 á útivelli.
Það var strax ljóst að eitthvað slæmt hafði gerst eftir að Blind festi takkana í gervigrasinu er Holland lagði Gíbraltar 7-0 á útivelli. Pablo Morano/Orange Pictures

Daley Blind, leikmaður hollenska landsliðsins og Ajax, meiddist illa í 7-0 sigri Hollands á Gíbraltar í undankeppni HM 2022 á dögunum. Hann er bjartsýnn og stefnir á að ná EM í sumar en það verður að teljast ólíklegt.

Hinn 31 árs gamli Blind festi takkana á skóm sínum í gervigrasinu sem leikur Gíbraltar og Hollands var spilaður á. Atvikið leit skelfilega út og virtist sem Blind hefði mögulega slitið krossbönd í hné. Sem betur fer fyrir Blind sluppu krossböndin en hann sleit hins vegar liðbönd í vinstri ökkla.

„Ég reikna með að tímabili mínu með Ajax sé lokið. Ég mun fara í aðgerð í næstu viku og ef allt gengur að óskum í endurhæfingunni þá vonast ég til að ná Evrópumótinu í sumar,“ sagði Blind í yfirlýsingu Ajax.

Ajax hefur gengið frábærlega á leiktíðinni. Liðið er með 11 stiga forystu á toppi hollensku úrvalsdeildarinnar, einnig er liðið komið í úrslit hollenska bikarsins þar sem það mætir Vitesse Arnhem. Þá er Ajax komið í 8-liða úrslit Evrópudeildarinnar þar sem Roma bíður.

„Auðvitað er ég mjög svekktur. Þú spilar fótbolta til að vinna titla og þessir titlar verða unnir á næstu mánuðum. Ég hefði viljað vera þarna með liðinu því þetta hefur verið frábært tímabil þessa. Því miður fyrir mig er því nú lokið,“ sagði Blind að lokum.

Blind er þó bjartsýnn og stefnir á að bæta við þá 76 landsleiki sem hann hefur leikið til þessa þegar EM hefst í sumar. Holland er þar í riðli með Úkraínu, Austurríki og Norður-Makedóníu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×