Fyrirtaka í málinu hófst í Héraðsdómi Reykjavíkur klukkan þrjú í dag. Í fyrstu leit út fyrir að þinghald yrði opið og höfðu fjölmiðlamenn komið sér fyrir í salnum þegar Reimar Pétursson, einn lögmannana, fór fram á að þinghald yrði lokað og var sammælst um það.
Þrjár kröfur gesta á sóttkvíarhótelinu voru teknar fyrir í dag en þeir krefjast þess vistuninni verði aflétt tafarlaust. Kröfur tveggja fjölskyldna til viðbótar bættust við í dag og verður þær til meðferðar síðar. Alls eru tólf einstaklingar undir í málunum fimm að sögn Ómars R. Valdimarssonar, lögmanns.
Lögmenn gesta á hótelinu telja að ekki sé næg lagastoð fyrir því að skylda fólk til dvalar á sóttkvíarhóteli hafi það önnur úrræði.
Kröfugerð sóttvarnalæknis barst héraðsdómi á hádegi í dag. Þórólfur Guðnason ítrekaði mikilvægi sóttvarnaraðgerða í hádegisfréttum Bylgjunnar í dag.
„Ég bara bendi á að þungamiðjan í þessu máli og fókusinn eru sóttvarnarsjónarmið en ekki endilega lögfræðihlutinn þó hann verði auðvitað að vera í lagi. Við erum að reyna að koma í veg fyrir smit hingað inn með öllum tiltækum ráðum sem við getum og koma þannig í veg fyrir að við fáum faraldur innanlands á meðan við erum að reyna að ná útbreiddari þátttöku í bólusetningu,“ sagði Þórólfur.
Þá veltir hann upp ábyrgð sóttvarnalæknis.
„Það voru smá umræður um þetta í gær hvort það væri ráðuneytið eða sóttvarnalæknir og niðurstaðan var þessi, að það væri sóttvarnalæknir sem þyrfti að leggja fram þessa kröfugerð. Þetta er tilgreint svona í sóttvarnarlögum og reyndar kemur þetta líka fram í reglugerðinni.“
„En jújú ég tek alveg undir það. Mér finnst alveg sérkennilegt að sóttvarnalæknir þurfi að svara fyrir reglugerð ráðuneytisins en svona er þetta nú bara og ég tek því bara eins og öðru,“ sagði Þórólfur.
Fréttin hefur verið uppfærð.