„Það hefur borið á því að fólk sem hafi ætlað að fara hafi ætlað að láta vini eða ættingja sækja sig sem er náttúrulega þvert á sóttvarnareglur, er brot á sóttkví, þannig að við höfum verið að reyna að stoppa það,“ segir Gylfi Þór Þorsteinsson, forstöðumaður farsóttarhúsa Rauða Krossins, í samtali við fréttastofu.
Hann segir að ekki ýkja margir hafi farið það sem af er kvöldi eftir að úrskurður Héraðsdóms var kynntur rétt fyrir klukkan sex. Nú hafi gestir úr fimm eða sex herbergjum yfirgefið sóttkvíarhúsið en nú dvelja um 260 manns á hótelinu.
Einhverjir virðast ekki hafa skilið sóttkvíarreglur og reynt að láta sækja sig á sóttkvíarhótelið til þess að geta lokið sóttkví í heimahúsi. Starfsmönnum sóttkvíarhótelsins hefur þó tekist að forða fólki frá þeim mistökum.
„Við höfum bara séð það þegar fólk hefur verið að koma og sækja fólk, eins hefur okkur verið sagt að þau ætluðu að láta þennan eða hinn sækja sig. Þá hefur verið bent strax á það að það sé ekki leyfilegt,“ segir Gylfi.
„Fólk á alls ekki að láta sækja sig nema viðkomandi ökumaður hafi mótefni en það er samt ekki öruggt.“
Gylfi segir þó að allt hafi gengið áfallalaust fyrir sig.
„Auðvitað voru ekki allir sáttir við þessa tilhögun, að þurfa að vera þarna. Sérstaklega það fólk sem taldi sig geta sinnt sóttkvínni heima fyrir. Við sjáum strax að það eru brotalamir fyrir því, sumir sem töldu sig geta sinnt sóttkvínni virtust nú ekki geta gert það betur en svo að þau ætluðu að láta sækja sig.“