„Reynslan hefur sýnt, að þegar þrengt er að umferð á tengibrautum og stofnleiðum, leitar umferð frekar inn í íbúðahverfin. Skýrt dæmi um þetta er frá árinu 2014, þegar borgaryfirvöld þrengdu að umferð á Hofsvallagötu. Þetta varð til þess, að ökutækjum fjölgaði um 1.000 á sólarhring í nærliggjandi íbúðargötum og er það samkvæmt talningu borgaryfirvalda sjálfra,“ segir í tilkynningunni.
Þá er því einnig haldið fram að breytingarnar séu boðaðar undir því yfirskini að lækka eigi umferðarhraða til að draga úr svifryksmengun. „Þrif á götum borgarinnar hafa ekki verið nægileg og það þarf að þrífa götur Reykjavíkur oftar en 1-2 sinnum á ári. Það væri nær að leggja frekari áherslu á þrif á stofnbrautum. Auk þess mun enn betri snjómokstur frekar draga úr notkun nagladekkja,“ segir í tilkynningunni.
Á þessum forsendum skorar Vörður á borgaryfirvöld að falla frá áformum sínum.