Ákvörðun Bidens um að halda ráðstefnuna, sem var haldin í streymi, er talin benda til þess að ríkisstjórn hans vilji leiða baráttuna gegn loftslagsvánni. Ráðstefnan stendur yfir í dag og á morgun, en í dag er einnig dagur jarðarinnar (e. Earth Day).
Leiðtogar fjörutíu ríkja tóku þátt í ráðstefnunni en þeirra á meðal voru leiðtogar Kína, Indlands og Rússlands, sem eru meðal stærstu mengunarríkja í heiminum.
Bandaríkin, sem fylgja fast á hæla Kína hvað varðar gróðurhúsamengun, sækjast eins og áður segir eftir því að leiða baráttuna gegn loftslagsvánni að nýju. Ríkið hefur undanfarin ár ekki verið framarlega í baráttunni gegn loftslagsvánni í kjölfar þess að Donald Trump, þáverandi Bandaríkjaforseti, dró ríkið úr Parísarsáttmálanum.
„Á þessum áratugi verðum við að taka ákvarðanir sem munu leiða til þess að við forðumst stórskaða vegna lofslagsvárinnar,“ sagði Biden á fundinum í dag.
Tvö ríki til viðbótar lýstu yfir nýjum markmiðum í baráttunni gegn loftslagsvánni. Yoshihide Suga, forsætisráðherra Japans, kynnti í dag nýja áætlun um að skera niður mengun gróðurhúsalofttegunda um 46 prósent, miðað við árið 2005, en markmið ríkisins var áður 26 prósent.
Þá kynnti Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, nýja áætlun um að minnka mengun um 40 til 45 prósent en áður var markmiðið 30 prósent.