Körfubolti

Jón Axel og Elvar Már báðir í tapliði

Valur Páll Eiríksson skrifar
Jón Axel Guðmundsson.jfif

Tveir landsliðsmenn Íslands í körfubolta voru í eldlínunni í Evrópuboltanum í dag. Jón Axel Guðmundsson var í tapliði í Þýskalandi og Elvar Már Friðriksson tapaði sömuleiðis í Litáen.

Jón Axel spilaði 24 mínútur fyrir lið Frankfurt sem tapaði með fimm stiga mun, 81-76, fyrir Syntainics á heimavelli. Jón Axel skoraði tólf stig, tók eitt frákast og gaf þrjár stoðsendingar í leiknum.

Frankfurt er í 11. sæti deildarinnar með 22 stig eftir 28 leiki. Liðið á einn til tvo leiki inni á liðin í kringum sig en átta stig eru upp í umspilssæti og þýða úrslit dagsins að möguleikar liðsins á sæti þar eru veikir.

Elvar Már var í liði Siauliai sem þurfti að þola 105-86 stórtap fyrir toppliði Zalgiris Kaunas í litáísku úrvalsdeildinni í dag. Elvar skoraði níu stig, tók tvö fráköst og gaf sjö stoðsendingar í leiknum.

Liðið er í sjöunda sæti deildarinnar af tíu og er í harðri baráttu um umspilssæti, sem átta lið í deildinni fá. Siauliai hefur unnið ellefu leiki af 31 á leiktíðinni, líkt og Neptunas sem er í áttunda sæti. Liðin tvö fyrir ofan hafa unnið 12, liðið í níunda 10 leiki og botnliðið, í eina fallsætinu, níu leiki. Það er því skammt á milli umspils og falls í Litáen.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×