Fleiri en fjórtán milljónir manna hafa smitast af kórónuveirunni í Brasilíu samkvæmt opinberum tölum. Bolsonaro forseti hefur frá upphafi gert lítið úr alvarleika faraldursins og gagnrýnt samkomutakmarkanir, grímuskyldu og bólusetningar. Forsetinn hefur jafnvel tekið þátt í mótmælum gegn sóttvarnaaðgerðum eigin ríkisstjórnar.
Stuðningur við Bolsonaro hefur hrunið samhliða því sem holskefla smitaðra sligar heilbrigðiskerfi landsins. Sjúkrahús eru yfirfull og fólk deyr á meðan það bíður eftir að fá meðferð, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC. Þrátt fyrir það situr forsetinn fast við sinn keip og leggst gegn samkomutakmörkunum með þeim rökum að efnahagslega höggið vegna þeirra væri verra en veiran sjálf.
Hæstiréttur landsins skipaði fyrir um að öldungadeild þingsins skyldi rannsaka viðbrögð stjórnvalda við faraldrinum. Þingnefnd kannar meðal annars hvers vegna svo hægt gengur að afla bóluefna, hvernig ríkisstjórnin gerði lítið úr alvarleika faraldursins, talaði fyrir notkun lyfja sem ekki var sýnt fram á að gögnuðust gegn Covid-19 og skort á lækningabúnaði svo eitthvað sé nefnt.
Þá beinist rannsóknin að því hvort að Bolsonaro hafi vísvitandi leyft faraldrinum að grassera í því skyni að ná hjarðónæmi í landinu og hvort að þjóðarmorð hafi verið framið á frumbyggjum í Amasonfrumskóginum þegar sérlega banvænt afbrigði veirunnar fékk að geisa á meðal þeirra stjórnlaust.