Þetta kemur fram í tilkynningu frá heilbrigðisráðuneytinu. Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra kynnti áætlunina á þriðjudag sem er í fjórum skrefum og tekur mið af framgangi bólusetningar. Í henni er gert ráð fyrir að 35% bólusetningarhópsins verði minnst kominn með fyrsta skammt bóluefnis í fyrri hluta maí. Því er framgangur bólusetningar lítillega á undan áætlun stjórnvalda eins og stendur.

Samkvæmt áætluninni stefna stjórnvöld á þessu stigi að því að rýmka fjöldatakmörk og miða við mörk á bilinu 20 til 200 manns. Einnig er gert ráð fyrir rýmri undanþágu frá nálægðarreglu og fjöldatakmörkun fyrir tiltekna starfsemi. Núgildandi fjöldatakmörkun miðast við 20 manns.
Þessar afléttingaráætlanir eru þó háðar mati sóttvarnalæknis á faraldrinum sem gerir tillögur um breytingar.
Vill bíða með afléttingar
Núgildandi sóttvarnareglur gilda til 5. maí næstkomandi en Þórólfur Guðnason sagði í samtali við RÚV í dag að hann telji best að bíða með afléttingar til þess að ná betur utan um stöðuna.
Þá sagði hann ekki hægt að fullyrða að búið væri ná alveg tökum á þeim hópsmitum sem upp hafi komið að undanförnu. Þórólfur hafði ekki skilað tillögum sínum til heilbrigðisráðherra fyrr í dag og hyggst skila minnisblaði um helgina.
Fimm einstaklingar greindust innanlands með kórónuveiruna í gær og voru þeir allir í sóttkví. Sóttvarnalæknir sagði í hádegisfréttum Bylgjunnar að tölur gærdagsins litu ágætlega út.
„Þessi einstaklingar tengjast fyrri smitum sem við höfum rætt um. Nokkrir af þeim fóru nýlega í sóttkví. Þetta mun sveiflast svona til og frá, innan sóttkvíar og utan, næstu daga. Við erum ekki alveg komin fyrir vind í þessu.“
Fréttin hefur verið uppfærð.