Hnémeiðslin sem Mirza varð fyrir í öðrum leiknum á móti Grindavík eru það alvarleg að hann spilar ekki meira með liðinu.
Arnar Guðjónsson, þjálfari Stjörnunnar, staðfesti við mbl.is, að Mirza Sarajlija sé með rifinn liðþófa og það að hann spili ekki meira með liðinu í úrslitakeppninni.
Samkvæmt Arnari eru menn frá í átta vikur hið minnsta eftir svona meiðsli.
Arnar Guðjónsson, þjálfari Stjörnunnar í körfuknattleik karla, hefur staðfest að tímabili slóvenska bakvarðarins Mirza Sarajlija sé lokið með liðinu eftir að hann reif liðþófa í hné. https://t.co/PEBKvlaXUM
— mbl.is SPORT (@mblsport) May 20, 2021
Gunnar Ólafsson var hins vegar heppnari með sín meiðsli og er væntanlega bara með mar en ekki brákað rifbein. Arnar er bjartsýnn á það að Gunnar verði leikfær í næsta leik.
Mirza Sarajlija var með 14,2 stig, 4,1 stoðsendingu og 3,4 fráköst að meðaltali í leik í deildarkeppninni, hann skoraði 14 stig í fyrsta leiknum á móti Grindavík og var kominn með 8 stig á 15 mínútum þegar hann meiddist í byrjun seinni hálfleiks í Grindavík.
Stjörnumenn endurheimta fyrirliða sinn Hlyn Bæringsson í næsta leik en hann missti af þessum öðrum leik vegna leikbanns eins og frægt er orðið.
Þriðji leikur Stjörnunnar og Grindavíkur fer fram í Garðabænum á laugardaginn en staðan í einvíginu er 1-1. Það lið sem fyrr vinnur þrjá leiki kemst í undanúrslit.