Handtökuskipunin varðar rannsókn lögreglu á brotum sem söngvarinn er grunaður um að hafa framið á tónleikum í Gilford árið 2019. Í tilkynningu segir lögregla Manson og umboðsmenn hans hafa vitað af handtökuskipuninni í nokkurn tíma.
Hann hefur hins vegar ekki sett sig í samband við lögreglu.
Samkvæmt tilkynningunni eru umrædd brot ekki „kynferðislegs eðlis“.
Ashley Walters, fyrrverandi aðstoðarmaður Manson, er meðal þeirra sem hafa sakað söngvarann um að hafa brotið gegn sér. Hún hefur kært hann fyrir kynferðisofbeldi.
Manson hefur ekki svarað ásökununum opinberlega en umboðsmenn hans segja hann aldrei hafa brotið á neinum.
Útgáfufyrirtækið Loma Vista Recordings sleit samningum sínum við Manson eftir að leikkonan Evan Rachel Wood steig fram og sagðist hafa orðið fyrir hrottalegu ofbeldi af hálfu tónlistarmannsins.