Kvendýrið fannst í vísindaleiðangri til Fernandina-eyju árið 2019 og báru vísindamenn lífsýni saman við leifar af löngu dauðri risaskjaldböku af tegundinni Chelonoidis phantasticus. Síðast sást til slíks dýrs árið 1906.
BBC segir frá því að það hafi verið vísindamenn á vegum California Academy of Sciences sem hafi unnið að rannsókninni og rekist á risaskjaldbökuna á Fernandina-eyju.
Gustavo Manrique, umhverfisráðherra Ekvadors, fagnaði fréttunum í vikunni og sagði „vonina lifa“.
Talið er að risaskjaldbakan sem fannst sé rúmlega hundrað ára gömul og er henni nú haldið í ræktunarstöð á eynni Santa Cruz.
Vísindamennirnir segja að bæði spor og saur hafi fundist sem bendi til að fleiri dýr af sömu tegund kunni þar að finnast. Er stefnt að því að gera út leiðangur til Fernandina-eyjar til að kortleggja hvort að fleiri dýr af sömu tegund leynist á eynni.