„Það er einhver tilfinning sem poppaði upp. Ég var ekkert búinn að undirbúa það neitt vel að hætta eða hvernig þetta yrði allt saman. Þetta er búið að vera ofboðslega löng sería og hrikalega erfið. Líkamlega og andlega, þetta er búið að líða eins og hálft ár.“
„Það er ákveðinn léttir en sársaukinn mikill að detta út og því þú ferð í þetta, þú setur allt í þetta. Þá er ofboðslega sárt að ná ekki markmiðinu en ég er búinn að upplifa svo margt skemmtilegt á ferlinum að það væri vanvirðing að vera gráta of mikið yfir þessu,“ sagði Jón Arnór aðspurður hvort það væri virkilega léttir að vera hættur en það sagði í viðtali við Vísi beint eftir leik.
Hann hélt svo áfram.
„Ég er búinn að vinna nánast allt og upplifa frábæra tíma. Verið góður, lélegur og allt þetta. Ég er fyrst og fremst bara þakklátur fyrir minn feril og að fá að taka þátt í svona alvöru, alvöru rimmu. Ef þetta er síðasta rimman þá er það bara frábært,“ sagði Jón Arnór einnig.
„Þetta er búið að taka rosalega á alla.“

„Þetta var skrifað í skýin að við myndum mætast. Ég vildi fá þá rimmu og við vildum fá KR. Ég hugsa að spennufallið hefði verið gríðarlega mikið eftir þessa seríu. Ég óska KR góðs gengis að rífa sig upp fyrir næstu, þetta er búið að taka rosalega á alla. Það verður gaman að fylgjast með framhaldinu en ég fer bara að smíða pallinn. Kemst loksins í það núna.“
„Ég er ekki búinn að fella tár enn, það kemur seinna. Það er ótrúlega mikið af tilfinningum ólgandi inn í mér núna. Mér líður bara vel. Ég var búinn að taka þessa ákvörðun,“ sagði Jón Arnór um hvernig sér liði.


„Ég var að vonast til að það yrði smá stemmning á pöllunum ef maður væri að leggja skónna á hilluna og ég fékk alvöru rimmu. Ég fann það alveg að ég varð að spila eitt ár í viðbót og sé heldur betur ekki eftir því. Núna finn ég að ég var búinn að ákveða þetta, var kominn á ákveðinn stað, er að fara skrá mig í nám í Háskóla Reykjavíkur þannig það er eitthvað sem er að taka við. Ég er sáttur með niðurstöðuna að vera hættur en auðvitað verður það erfitt, ég er alveg að undirbúa mig undir það líka en ég er bara nokkuð léttur.“
Viðtalið má sjá í heild sinni hér að neðan en þar fer Jón Arnór einnig yfir hversu andlega rimman við KR tók á, hvernig það var að heyra misfalleg orð kölluð úr stúkunni.
Þá var Benedikt Guðmundsson, einn af sérfræðingum þáttarins og fyrrum þjálfari Jóns Arnórs í yngri flokkum, spurður hvernig sér liði að vita að Jón Arnór væri hættur og hvað stæði upp úr.
„Sko nú fer ég að verða klökkur. Ég ætlaði bara að halda mér saman meðan hann væri hérna svo bara no comment. Ég held þetta sé erfiðara fyrir mig heldur en hann,“ sagði tilfinningaríkur Benedikt einfaldlega.
„Ég var þarna niðri með félögum mínum þó ég hafi verið í öðrum búning,“ sagði Jón Arnór að lokum í viðtali eftir sinn síðasta leik á ferlinum.

Domino's Körfuboltakvöld er uppgjörsþáttur Stöðvar 2 Sports um Domino's-deildir karla og kvenna í körfubolta og er á dagskrá öll föstudagskvöld. Upptökur af þættinum má nálgast á sjónvarpsvef Stöðvar 2. Domino's-deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland.