Fótbolti

Í­hugaði að flytja heim til Ís­lands eftir skelfi­legt ár

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Guðlaugur Victor Pálsson í leik með íslenska landsliðinu.
Guðlaugur Victor Pálsson í leik með íslenska landsliðinu. Vísir/Vilhelm

Íslenski landsliðsmaðurinn, Guðlaugur Victor Pálsson, opnaði sig um mikla erfiðleika á árinu 2020 og viðurkenndi að hann hefði íhugað að hætta í atvinnumennsku og koma heim til Íslands og spila einfaldlega í Pepsi Max-deildinni.

Hinn 30 ára gamli Guðlaugur Victor hefur á undanförnum mánuðum orðið einn af máttarstólpum íslenska landsliðsins og samdi á dögunum við þýska stórliði Schalke 04. 

Það er hins vegar ekki langt síðan hann íhugaði að koma heim og spila í Pepsi Max-deildinni í sumar en Guðlaugur Victor varð fyrir því áfalli að missa móður sína í lok nóvember síðasta árs. Þetta kom fram í ítarlegu viðtali Guðlaugs Victors við íþróttavef Morgunblaðsins um helgina.

Guðlaugur ræðir síðasta tímabil í viðtalinu þar sem hann fer yfir hvernig hann byrjaði í banni og hafði aðeins spilað einn leik fyrir Darmstadt, þáverandi vinnuveitendur sína, áður en hann fer í verkefni með íslenska landsliðinu. Svo spilaði hann tvo leiki til viðbótar áður en hann fór í annað landsliðsverkefni.

Guðlaugur Victor Pálsson í skallabaráttu gegn Þýskalandi fyrr á þessu ári.EPA-EFE/TOBIAS SCHWARZ

„Allt í allt voru þetta einhverjir fjórir leikir fyrir áramót sem ég spila með Darmstadt á meðan ég tók þátt í sex leikjum með íslenska landsliðinu. Ég meiðst svo um haustið og er frá í einhverja þrjá mánuði allt í allt því ég var eitthvað frá keppni líka eftir að ég missti mömmu.“

Þá þurfti Guðlaugur Victor að fara í tvær aðgerðir á svipuðum tíma sem og barnsmóðir hans var að flytja með son hans til Kanada. Það var því mikið í gangi á ansi stuttum tíma.

„Ég kveið því að sjá á eftir stráknum mínum til Kanada, ég meiðist, við komumst ekki á EM, ég fer í tvær aðgerðir og missi svo móður mína. Þetta gerist allt á þriggja vikna kafla og ég get viðurkennt það að tilveran hjá mér hrundi þarna á ákveðnum tímapunkti.“

Guðlaugur Victor segist hafa talað við sálfræðinginn sinn daglega í allt að þrjá mánuði og er hann henni mjög þakklátur. Svo virðist sem þessi öflugi leikmaður hafi náð að finna taktinn og ryðmann á nýjan leik – bæði innan vallar sem utan – og samdi nýverið við þýska stórliði Schalke 04.

Guðlaugur Victor Pálsson með treyju Schalke, síns nýja félags.schalke04.de

Er honum ætlað stórt hlutverk í liði sem féll óvænt úr þýsku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð. Liðið ætlar sér strax upp aftur og mun Guðlaugur Victor eflaust leggja sitt af mörgum svo það gangi eftir.

Viðtal Guðlaugs Victors má lesa í heild sinni á vef mbl.is.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×