Brynjar Ingi kom Íslandi 2-1 yfir með frábærri afgreiðslu á 47. mínútu leiksins eftir að miðvörðurinn að norðan fór fram í aukaspyrnu. Brynjar lagði boltann frábærlega fyrir sig og þrumaði honum síðan óverjandi upp í þaknetið á marki Pólverja.
Þetta var aðeins hans þriðji landsleikur og hans fyrsta mark.
Það þarf að fara alla leið aftur til 3. apríl 1990 til að finna mark KA-manns fyrir A-landsliðið. Nákvæmlega liðu 31 ár, 2 mánuðir og 5 dagar á milli markanna.
Kjartan Einarsson skoraði þá eitt af fjórum mörkum Íslands í 4-0 sigri á Bermúda í vináttulandsleik en leikið var á Þjóðarleikvanginum í Hamilton, höfuðstað Bermúdaeyja.
Kjartan, sem var þá að leika sinn fyrsta landsleik, hafði gengið til liðs við KA í desember árið á undan. Hann kom Íslandi í 3-0 með marki rétt fyrir hlé en hafði áður átt stóran þátt í marki Péturs Ormslev.
Kjartan lék einnig seinni leikinn í ferðinni á móti Bandaríkjunum í St. Louis án þess að skora en þetta voru hans einu landsleikir sem KA-maður. Kjartan spilaði einn landsleik til viðbótar árið eftir en þá sem leikmaður Keflavíkur.
Brynjar Ingi er fimmti KA-maðurinn sem skorar fyrir íslenska landsliðið en hinir auk Kjartans hafa þeir Erlingur Kristjánsson (3 mörk 1982), Gunnar Gíslason (1983) og Steingrímur Birgisson (1984) skoraði fyrir Ísland sem leikmenn KA.