Á annan tug líklegra keppinauta Ortega í forsetakosningum í nóvember og áberandi stjórnarandstæðinga hefur verið handtekinn á undanförnum vikum. Flestir þeirra handteknu eru sakaðir um glæpi gegn sjálfstæðis og fullveldi Níkaragva á grundvelli umdeildra landráðalaga sem Ortega keyrði í gegn í fyrra.
Sömu sögu er að segja um Lanzas en hún er sökuð um glæpi gegn ríkinu. Í yfirlýsingu lögreglunnar sagði að Lanzas yrði í haldi á meðan ásakanir á hendur henni væru rannsakaðar. Ekki kom fram hvar Arnoldo Aleman, eiginmaður hennar og fyrrverandi forseti, væri niður kominn, að sögn AP-fréttastofunnar.
Herferð Ortega gegn stjórnarandstöðunni virðist ætlað að ryðja öllum hugsanlegum keppinautum hans úr vegi fyrir forsetakosningarnar í haust. Líklegt er talið að Ortega sækist þá eftir endurkjöri en hann hefur setið á forsetastóli sleitulaust frá 2007. Hann lét breyta stjórnarskrá til þess að hann gæti boðið sig fram til þriðja kjörtímabils fyrir síðustu kosningar.
Nú hefur stjórn Ortega einnig útilokað stjórnmálaflokk breiðfylkingar stjórnarandstöðunnar frá kjörseðlinum í haust.
Ekki raunverulegar kosningar
Sergio Ramírez, fyrrverandi forseti Níkaragva og rithöfundur, segir nú útilokað að kosningarnar í haust verði frjálsar. Það sem sem stjórnarandstaðan áorkaði með því að taka þátt í þeim væri að veita endurkjöri Ortega lögmæti.
Hann sakar Ortega um að koma á ógnarstjórn í Níkaragva sem komi í veg fyrir að fólk geti talað saman hreinskilnislega á götum úti og að forsetinn umberi ekkert pólitískt andóf.
„Kosningar þar sem meirihluti frambjóðendanna gegn Ortega eru í fangelsi geta ekki verið kosningar,“ sagði Ramírez en nú sitja fimm forsetaframbjóðendur í haldi stjórnar Ortega.
Níkaragvönsk yfirvöld kölluðu Ramírez til að bera vitni í peningaþvættismáli þeirra gegn Cristiönu Chamorro, eins forsetaframbjóðenda stjórnarandstöðunnar. Hún er dóttir Violetu Chamorro sem lagði Ortega að velli í forsetakosningum árið 1990.