Erlent

Segja ekkert til í því að Rússar hafi skotið að HMS Defender

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
HMS Defender við strendur Skotlands árið 2019.
HMS Defender við strendur Skotlands árið 2019. MOD/CROWN

Bresk stjórnvöld segja ekkert hæft í fregnum þess efnis að Rússar hafi skotið viðvörunarskotum í átt að breska herskipinu HMS Defender á hafsvæðinu suður af Krímskaga.

Rússneskir miðlar höfðu eftir heimildarmönnum innan rússneska varnarmálaráðuneytisins að Defender hefði siglt inn á yfirráðasvæði Rússa, sem hefðu svarað með því að skjóta viðvörunarskotum að herskipinu.

Ben Wallace, varnarmálaráðherra Breta, sagði hins vegar í tilkynningu að Defender hefði verið við reglubundið eftirlit og innan landhelgi Úkraínu. Rússnesk fley hefðu fylgt herskipinu eftir og skipstjórnendum gert viðvart um heræfingar á svæðinu.

Engum skotum hefði verið beint að Defender og varnamálaráðuneytið kannaðist ekki við að sprengjum hefði verið varpað í veg fyrir skipið. Þetta rímar ekki við frásögn rússneskra yfirvalda, sem segja breska skipið hafa breytt um stefnu í kjölfar aðgerða af þeirra hálfu.

Varnarmálafulltrúi Breta í Rússlandi hefur verið boðaður á fund í rússneska varnarmálaráðuneytinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×