Erlent

Leyni­leg skjöl breska varnar­mála­ráðu­neytisins fundust á stoppi­stöð

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Ben Wallace er varnarmálaráðherra Bretlands.
Ben Wallace er varnarmálaráðherra Bretlands. vísir/David Cliff

Varnar­mála­ráðu­neyti Bret­lands rann­sakar nú hvernig trúnaðar­skjöl um að­gerðir breska hersins týndust í síðustu viku. Þau fundust aftur á strætó­stoppi­stöð í Kent síðasta þriðju­dag.

Ráðu­neytið segir við breska miðla að starfs­maður þess hafi til­kynnt um hvarf skjalanna í síðustu viku. Skjölin inni­halda ýmsar upp­lýsingar um hernaðar- og við­bragðs­á­ætlanir breska hersins.

Meðal annars var þar skjal sem út­listaði mögu­leg við­brögð sjó­hersins við mögu­legum við­brögðum Rússa við því að breska her­skipið HMS D­ef­ender sigldi inn í úkraínska lög­sögu. Á öðru skjali mátti finna mögulegar áætlanir Breta um að senda her­lið til Afgan­istan.

Það var al­mennur borgari sem fann skjölin ó­vænt á bak við strætó­stoppi­stöð í Kent.

Segja ekkert óeðlilegt við skjölin

Í svari varnar­mála­ráðu­neytisins til breskra miðla segir að ekkert ó­eðli­legt sé við ferð her­skipsins um svæði Úkraínu. Varnar­mála­ráðu­neytið búi sig hins vegar vel undir allar ferðir og að­gerðir sínar og sé til­búið með við­brögð við öllum mögu­legum að­stæðum.

„Varnar­mála­ráðu­neytið fékk upp­lýsingar um það í síðustu viku að skjöl sem inni­héldu við­kvæmar upp­lýsingar hefðu fundist af al­mennum borgara. Ráðu­neytið tekur upp­lýsinga­öryggi afar al­var­lega og hefur hafið rann­sókn á málinu.

Starfs­maður okkar sem á hlut að málinu til­kynnti ráðu­neytinu að skjölin hefðu týnst. Það væri ó­við­eig­andi að ráðu­neytið segði meira um málið,“ segir í svari ráðu­neytisins.

Af þessum orðum ráðu­neytisins má helst ætla að um­ræddur starfs­maður hafi týnt skjölunum ein­hvers staðar utan ráðu­neytisins. Mögu­lega á stoppi­stöðinni sem þau fundust aftur á.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×