„Óróinn snarminnkaði í eftirmiðdaginn. Það er þó ennþá gosórói,“ segir Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur. Hann segir óróann ekki hafa minnkað jafn mikið núna og gerðist fyrr í vikunni þegar hlé virðist hafa orðið á gosinu.
Á vefmyndavélinni hefur sést rjúka upp úr gígnum nú síðdegis og því líklegt að þar sé opin hrauntjörn, þótt ekki sjáist hraun berast frá gígnum á yfirborði. Raunar mátti sjá glytta í hraunslettu nú síðdegis þannig að enn virðist krauma í gígnum.

Gosórói féll einnig niður á mánudagskvöld og aðfararnótt þriðjudags og spurðu margir sig hvort farið væri að hylla undir goslok. Telur Páll nokkuð víst að þá hafi gosið legið niðri í nokkrar klukkustundir.
Eldstöðin var hins vegar fljót að þagga niður í vangaveltum um að hún væri komin að fótum fram. Í fyrrakvöld sendi hún frá sér svo öflugar hraungusur að það flæddi yfir gígbarmana allan hringinn, eins og sjá mátti í frétt Stöðvar 2 í gærkvöldi:
Hér má tengjast vefmyndavél Vísis til að sjá eldstöðina í beinni útsendingu: