Talið er að þegar jökulhlaup verði eftir mikla vatnssöfnun í vötnunum og þrýstingur í kvikuhólfinu sé mikill gjósi eldstöðin. Það skýrist af því að þegar vatnið hleypur ofan af kvikuhólfinu minnkar þrýstingur á það mikið og kvikan brýtur sér leið að yfirborði jarðar.
Mesta vatnsmagn í aldarfjórðung
Eins og er er mikill þrýstingur á kvikuhólfinu því ekki hefur mælst meira vatnsmagn í Grímsvötnum en nú síðan árið 1996 þegar stórt gos og jökulhlaup urðu í vötnunum.
„Það eru vísbendingar um að ísstíflan, austan við Grímsvötn sem að heldur vatninu inni og lækkaði töluvert eftir stóra hlaupið 96, hafi farið hækkandi og að vötnin geti núna safnað meira vatni en þau hafa gert,“ segir Björn Oddsson, jarðeðlisfræðingur og fagstjóri hjá almannavörnum í samtali við Vísi.

„Það búast allir við jökulhlaupi núna,“ segir hann og játar því að honum þyki líklegra en ekki að hlaupið verði í ár en að það láti bíða mikið lengur eftir sér.
Eins og að hrista kók og taka tappann af
En því lengur sem líður án þess að það hlaupi því meiri líkur eru á að gos fylgi því. „Vegna þess að ef kvikuhólfið í Grímsvötnum safnar alltaf meiri kviku þá er komin meiri kvika á geyminn núna en í fyrra til dæmis,“ segir Björn. „Hitt er svo að þrýstifallið ofan af kvikuhólfinu er meira ef við tökum meira vatn af því í einu heldur en minna.“
Hann styðst við einfaldara og óvísindalegra myndmál til að skýra samspil náttúrufyrirbrigðanna tveggja; hlaups og goss:
„Þetta er eins og að hrista kókflösku og skrúfa svo tappann af.“
Egill Aðalsteinsson tökumaður Stöðvar 2 flaug yfir gosstöðvarnar í Grímsvatnagosinu 2011:
Björn segir þó ómögulegt að spá því hversu stórt gosið yrði. Það var mjög stórt árið 2011 en í minni kantinum árið 2004. „Þetta er bara svoldið wildcard en sagan segir okkur að það verði lítið til meðalstórt að skala.“ Gos í Grímsvötnum eru alltaf sprengigos.
Hann segir að GPS-mælir sé á svæðinu sem gefi Veðurstofunni góðan fyrirvara áður en jökulhlaup hefst. Svæðið sé vaktað vel.