„Suðvestlæg eða breytileg átt í dag, skýjað og dálítil væta af og til á vestanverðu landinu. Hiti 11 til 18 stig,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings hjá Veðurstofu Íslands.

„Eins og hefur verið síðustu vikur er veðrið á Austurlandi allt annað mál, þar skín sólin og gæti hiti farið upp í 24 stig,“ heldur hann áfram.
Sem fyrr segir á svo eftir að kólna eitthvað um miðja vikuna þegar lægð nálgast landið frá suðurhluta Grænlands. Hún mun að sögn veðurfræðingsins stjórna veðri á landinu í nokkra daga og má þá búast við suðaustanátt og rigningu vestanlands á morgun og skýjuðu veðri og vætu á austurlandi um miðja viku.

Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á mánudag:
Gengur í suðaustan 8-15 með rigningu um landið vestan- og sunnanvert, en snýst í suðvestan 5-10 með skúrum um kvöldið. Hægari vindur og þurrt að mestu fyrir austan. Hiti 10 til 20 stig, hlýjast í innsveitum austanlands.
Á þriðjudag:
Suðlæg eða breytileg átt 5-10 m/s og stöku skúrir, en skýjað með köflum og yfirleitt þurrt fyrir austan. Hiti breytist lítið.
Á miðvikudag:
Suðvestlæg átt 5-10 m/s og víða skúrir. Hiti 11 til 16 stig.
Á fimmtudag:
Vestlæg átt og stöku skúrir vestanlands, en bjart með köflum og þurrt að kalla á Austurlandi. Hiti breytist lítið.
Á föstudag og laugardag:
Suðvestlæg átt, skýjað og dálítil væta suðvestantil, en yfirleitt bjart með köflum annars staðar. Hlýnar í veðri.