Þetta var undir miðnætti í gær og voru íbúar órólegir ekki síst vegna þess að sérsveitin hafði engan meintan óbótamann með sér af vettvangi.
Sævar Guðmundsson aðalvarðstjóri segir í samtali við Vísi að lögreglan hafi fengið tilkynningu sem var frá krökkum, þá í gegnum foreldra, um að þar færi maður um vopnaður skammbyssu við Áslandsskóla.

„Þá verður til þetta viðbragð hjá okkur samkvæmt verklagsreglum. Við fórum um hverfið með sérsveit og höfðum afskipti af tveimur piltum á vespum. Niðurstaðan var að ekkert skotvopn fannst hvorki á þessum tveimur né nokkrum öðrum,“ segir Sævar.
Ekkert skotvopn fannst en annar þeirra pilta var með kylfu og hnúajárn.
„Greinilega til í hvað sem var. En ekkert skotvopn fannst og þannig endaði þetta. Ekkert víst að þeir hafi verið með skotvopn og kannski hefur það verið einhver allt annar.“
Sævar segir að vitaskuld bregðist lögreglan við þegar tilkynning sem þessi kemur en ekki er vitað hvort um var að ræða alvöru vopn, platvopn eða ekkert vopn. Enginn botn er kominn í þá athugun.