Körfubolti

Giannis var ekki byrjaður að æfa körfu­bolta þegar LeBron komst í úr­slit í fyrsta sinn

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Giannis í baráttunni við LeBron á síðasta ári. Sá síðarnefndi var kominn í úrslitaeinvígi NBA áður en Giannis var farinn að leika sér með körfubolta.
Giannis í baráttunni við LeBron á síðasta ári. Sá síðarnefndi var kominn í úrslitaeinvígi NBA áður en Giannis var farinn að leika sér með körfubolta. Harry How/Getty Images

Það vakti mikla athygli þegar LeBron James sást í fremstu röð meðal áhorfenda á fimmta leik Milwaukee Bucks og Phoenix Suns í úrslitaeinvígis NBA-deildarinnar í körfubolta

Stórstjarna Bucks-liðsins vakti athygli á skemmtilegri staðreynd á blaðamannafundi nú fyrir sjötta og mögulega síðasta leik úrslitaeinvígisins.

Hinn 26 ára gamli Giannis Antetokounmpo – Gríska undrið – er í fyrsta skipti í úrslitum NBA-deildarinnar með liði sínu, Milwaukee Bucks. Segja má að Giannis hafi fundið fjöl sína í lífinu nokkuð seint en hann hóf ekki að æfa körfubolta fyrr en á táningsaldri.

„Ég var ekki byrjaður að spila körfubolta þegar hann fór fyrst í úrslit árið 2007. Það er brjálað að hugsa til þess,“ sagði Giannis um að sjá LeBron á hliðarlínunni á leik fimm sem Milwaukee vann sannfærandi og tók þar með 3-2 forystu í einvíginu.

„Ég hafði engan tíma til að tala við hann en það er ekki eitthvað sem ég geri þegar ég er að spila. Þetta er samt frábær saga – og þetta er ekki auglýsing – en kvöldið fyrir leikinn var ég að horfa á Space Jam á HBO. Svo er hann mættur í fremstu röð á leiknum,“ sagði Giannis glottandi.

Síðan LeBron James fór fyrst í úrslit árið 2017 hefur hann alls farið tíu sinnum í úrslitaviðureign NBA-deildarinnar. Fjórum sinnum hefur hann landað titlinum eftirsótta en sex sinnum hafa liðs hans þurft að lúta í gras.

Þá lék hann einnig aðalhlutverkið í Space Jam: A New Legacy sem er nú í kvikmyndahúsum.

Giannis er loksins kominn í úrslit og er aðeins einum sigri frá því að vinna sinn fyrsta titil á ferlinum. Sjötti leikur úrslitaeinvígis NBA-deildarinnar hefst klukkan 01.00 í nótt. Leikurinn er sýndur í beinni útsendingu Stöðvar 2 Sport 2.


NBA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NBA körfuboltinn er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×