Erlent

Ungur breti handtekinn fyrir fjársvik í gegnum Twitter auk fleiri netglæpa

Árni Sæberg skrifar
Fjölmargir heimsfrægir einstaklingar urðu fyrir barðinu á tölvuþrjótum
Fjölmargir heimsfrægir einstaklingar urðu fyrir barðinu á tölvuþrjótum AP/Alexander Zemlianichenko

Dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna tilkynnti í gær að 22 ára gamall breti hafi verið handtekinn á Spáni. Maðurinn er grunaður um að standa á bak við umfangsmikla tölvuárás á Twitter.

Joseph James O’Connor á yfir höfði sér margvíslegar ákærur fyrir fjársvik, kúgun og áreiti á netinu. 

Hann er sagður vera ábyrgur fyrir umfangsmikilli tölvuárás á Twitter, sem ætlað var að svíkja fólk til að gefa fjármuni í formi rafmynta. Hinn átján ára gamli Graham Ivan Clark var samverkamaður O'Connors í árásinni en hann hefur þegar hlotið fangelsisdóm fyrir hana.

Árásin var gerð í júlí í fyrra og fólst hún í að brotist var inn á Twitteraðganga fjölmargra heimsfrægra einstaklinga. Meðal þeirra sem urðu fyrir árásinni voru Joe Biden sem þá var í forsetaframboði og Elon Musk, forstjóri Tesla.

Tölvuþrjótarnir notuðu aðganga fræga fólksins til að biðja almenning að leggja rafmyntir inn á reikninga, eða svokölluð rafmyntaveski, í þeirra eigu. Þeir höfðu rúmlega 120 þúsund bandaríkjadali eða um fimmtán milljónir króna, upp úr krafsinu.

O'Connor er einnig grunaður um að hafa brotist inn á aðganga á samfélagsmiðlunum TikTok og Snapchat. Hann er sakaður um að hafa reynt að kúga fé út úr einstaklingi með því að hóta birtingu kynferðislegs efnis af viðkomandi, sem hann komst yfir með yfirtöku samfélagsmiðlaaðgangs. Þá er hann sakaður um að hafa áreitt sextán ára barn á netinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×