Innlent

Löng bíla­röð á Suður­lands­vegi eftir þriggja bíla á­rekstur

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Frá Suðurlandsvegi um klukkan hálf tvö í dag.
Frá Suðurlandsvegi um klukkan hálf tvö í dag. Vísir/Gunnar Leó

Árekstur varð á Þjóðvegi 1 nærri Hveragerði í hádeginu í dag. Löng bílaröð nær nú eftir Suðurlandsvegi frá Hveragerði og upp Kambana.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Suðurlandi er um að ræða þriggja bíla árekstur. Vegurinn er ekki lokaður en töluverðar tafir á umferð. Þá urðu ekki alvarleg slys á fólki.

Sjö bíla árekstur varð í Kömbunum síðdegis í gær sem rekja má til mikillar þoku á svæðinu. Lögregla mælir með því að fólk yfirfari ljósabúnað sinn og aki eftir aðstæðum.

Ökumaður sem Vísir ræddi við segir að fólk á leiðinni austur sé farið að viðra hunda sína og teygja úr sér. Þá hafi í það minnsta einn ferðamaður nýtt tímann í að bursta á sér tennurnar.

Uppfært klukkan 14:30

Dráttarbíll er búinn að draga bílana í burtu og umferð er farin að ganga á eðlilegum hraða.

Svona var staðan í Kömbunum klukkan 13:39.Vegagerðin



Fleiri fréttir

Sjá meira


×