Eftir að hafa tapað fyrsta leik sínum á Ólympíuleikunum hefur bandaríska liðið unnið þrjá leiki í röð og þarf bara tvo sigra í viðbót til að vinna gull á fjórðu Ólympíuleikunum í röð.
Spánverjar voru sterkari framan af og náðu mest tíu stiga forskoti, 39-29. Bandaríkin gáfu þá í og jöfnuðu fyrir hálfleik, 43-43.
Í 3. leikhluta tók Durant yfir og skoraði þá þrettán af 29 stigum sínum. Hann hitti úr tíu af sautján skotum sínum í leiknum. Ricky Rubio bar af í liði Spánar og skoraði 38 stig.
Jayson Tatum skoraði þrettán stig fyrir Bandaríkin, Jrue Holiday tólf og Damian Lillard ellefu. Devin Booker var með níu stig, níu fráköst og fimm stoðsendingar.
The #USABMNT defeats Spain, 95-81 to advance to the #Tokyo2020 Men's #Basketball Semifinals.
— NBA (@NBA) August 3, 2021
Kevin Durant: 29 PTS
Jayson Tatum: 13 PTS
Jrue Holiday: 12 PTS
Ricky Rubio: 38 PTS pic.twitter.com/3LIYUpaLM7
Luka Doncic og félagar hans í slóvenska landsliðinu eru einnig komnir áfram í undanúrslit eftir sigur á Þýskalandi, 94-70.
Doncic skoraði tuttugu stig, tók átta fráköst og gaf ellefu stoðsendingar. Hann hefur ekki enn tapað leik með slóvenska landsliðinu á ferlinum.
Top 4 in the world, a country of 2M people! What a feeling! #mislovenci pic.twitter.com/bK0woXuDRT
— Luka Doncic (@luka7doncic) August 3, 2021
Zoran Dragic var stigahæstur Slóvena með 27 stig og Mike Tobey, samherji Martins Hermannssonar hjá Valencia, skoraði þrettán stig og tók ellefu fráköst. Maodo Lo skoraði ellefu stig fyrir Þýskaland.
Í undanúrslitunum mæta Bandaríkin annað hvort Ástralíu eða Argentínu á meðan Slóvenía mætir sigurvegaranum úr leik Frakklands og Ítalíu.