Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Félagi sjúkrahúslækna sem Theódór Skúli Sigurðsson, formaður félagsins, skrifar undir.
Þar segir að núverandi hættustig á Landspítalanum sé ekki eingöngu tilkomið vegna faraldurs nýju kórónuveirunnar, heldur endurspegli það viðvarandi skort síðustu ára. Lágmarksmönnun og hundrað prósent hámarksnýting legurýma hafi fengið að viðgangast allt of lengi þrátt fyrir ítrekaðar aðvaranir lækna.
„Nú er svo komið að heildarfjöldi legurýma og gjörgæsluplássa á Íslandi er með því lægsta sem þekkist í Evrópu,“ segir í yfirlýsingunni.
„Sú staðreynd er íslenskum yfirvöldum til skammar.“
Mikilvægt að ná niður nýtingu legurýma
Í yfirlýsingunni segir ennfremur að þörf sé á hugarfarsbreytingu og nýjum áherslum við stjórnun og mönnun Landspítalans. Finna þurfi varanlega lausn á krónískum skorti legurýma. Forgangsatriði ætti að vera að ná nýtingu þeirra niður fyrir 90 prósent með öllum tiltækum ráðum í samræmi við alþjóðleg viðmið.
„Tryggja þarf svigrúm Landspítalans til að takast á við álagstoppa í innlögnum og þjónustu við alvarlega veika sjúklinga óháð sumarfríum starfsmanna. Mikilvægt er að gæta þess í lengstu lög að heilbrigðisstarfsmenn sem staðið hafa vaktina síðustu mánuði í baráttunni við COVID-19 faraldurinn fái óskert sumarfrí,“ segir í yfirlýsingunni.