Líkt og sjá má á meðfylgjandi myndum hefur nokkuð verið um grjótkast á hið nýstorknaða hraun, auk þess sem finna má rusl og einstaka krot á hraunið. Þá berast einnig reglulega fréttir þar sem fólk er eindregið varað við því að stíga á hraunið.
Umhverfisstofnun minnir hins vegar á að eldhraun, líkt og það sem nú rennur á Reykjanesi, njóti sérstakrar verndar samkvæmt lögum um náttúruvernd, og því er grjótkast upp á hraunið, krafs eða traðk í raun brot á þeirri vernd sem það á að njóta.
Vilja að gestir sýni náttúrunni virðingu
„Í rauninni eru þetta einstakar náttúruminjar sem eru þarna að myndast. Við erum bara að leggja áherslu á virðingu fyrir þessu. Þetta náttúrulega skemmir ásýndina fyrir öðrum sem eru að skoða náttúruna verða til,“ segir Inga Dóra Hrólfsdóttir, sviðsstjóri náttúruverndar og grænna áfangastaða hjá Umhverfisstofnun í samtali við Vísi.

Ef til vill er það freistandi fyrir suma að krota ævarandi ástarjátninu í hraunið, líkt og sjá má á meðfylgjandi mynd. Sannleikurinn er þó sá að fyrir utan það að athæfið er brot á náttúruverndarlögum, er það einnig stórhættulegt.
„Hraunið er gríðarlega heitt og getur tekið langan tíma að kólna sérstaklega þar sem gosið getur haldið áfram þó við sjáum ekki hreyfingu í gígnum sjálfum. Hraunið rennur þá undir svartri skelinni í hraunhellum eða hvelfingum. Hraunskelin getur auðveldlega brotnað og undir henni getur verið allt að 1200°C heitt hraun. Það er því varhugavert að klifra upp á hraunið og ganga ofan á því. Slík hegðun getur einnig skemmt jarðminjarnar,“ segir í tilkynningu frá Umhverfisstofnun vegna málsins.
„Þetta er náttúrulega líka öryggisatriði sem við erum að hugsa. Einhver hefur þurft að fara ofan á hraunið til að krota,“ segir Inga Dóra.

Landverðir Umhverfisstofnunar eru til staðar við eldstöðvarnar til þess að leiðbeina gestum, en stofnunin beinir því til gesta að bera virðingu fyrir því sem þarna á sér stað.
Þetta er einstakt sem er þarna að verða til, náttúrulegt ferli sem við helst sjá sem ósnerta náttúru.