Erlent

Suicide Squ­ad-stjarna fær nálgunar­bann gegn fyrir­sætu sem sakar hann um nauðgun

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Joel Kinnaman er sænskur leikari sem haslað hefur sér völl í Hollywood.
Joel Kinnaman er sænskur leikari sem haslað hefur sér völl í Hollywood. Axelle/Bauer-Griffin/FilmMagic)

Sænski leikarinn Joel Kinnaman hefur fengið tímabundið nálgunarbann gegn sænsku fyrirsætunni Bella Davis, sem sakað hefur hann um að hafa nauðgað sér. Kinnamann sakar hana á móti um að hafa ætlað að kúga sig.

Hollywoor Reporter greinir frá og vísar í færslu Kinnaman á samfélagsmiðlum þar sem hann segir að hann hafi fengið samþykkt nálgunarbann gegn Davis. Má hún ekki hafa samband við leikarann né koma nærri honum, heimili hans eða öðrum eignum en níutíu metra.

Davis hefur sakað Kinnaman um að hafa nauðgað sér samkvæmt frétt Hollywood Repoer en hún hefur birt myndir og sjáskot á Instagram sem hún segir renna stoðum undir mál sitt. Kinnaman hefur viðurkennt að þau hafi átt í stuttu sambandi, en að samskipti þeirra á milli á meðan því stóð hafi verið með samþykki beggja.

Þá segir Kinnaman að Davis hafi hótað að gera ásakanirnar um nauðgunina opinberar nema hann samþykkti ýmsar kröfur hennar, svo sem um peninga, aðstoð við að fá viðurkennda Instagram-síðu, Wikipedia-síðu og íbúð, svo dæmi séu tekin.

Kinnaman leikur eitt af aðalhlutverkunum í ofurhetjumyndum um The Suicide Squad, en nýjasta kvikmyndin í röð kvikmynda um ofurhetjurnar var frumsýnd á dögunum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×