Þetta kom fram í máli Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra á blaðamannafundi ríkisstjórnarinnar. Gert er ráð fyrir að skólastarf verði háð sömu takmörkunum en nemendur fæddir eftir 2006 fái að taka grímuna niður í skólastofu.
Í minnisblaði Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis til heilbrigðisráðherra segir að áfram verði unnið að greiningu á því hvaða vörn bólusetning veiti gegn alvarlegum veikindum. Um helmingur einstaklinga í einangrun eru á fyrstu viku veikinda og því of snemmt að segja til um hvaða áhrif bólusetning muni hafa á þessa einstaklinga.
Halda áfram samtali við hagsmunaaðila
Aldrei hafa fleiri verið í einangrun með Covid-19 hér á landi. Að sögn Þórólfs hefur fjöldinn þó ekki jafn mikla þýðingu nú þar sem stærstur hluti þjóðarinnar sé fullbólusettur.
Svandís lagði áherslu á að ríkisstjórnin myndi halda áfram samtali sínu við hagsmunaaðila, þar á meðal innan atvinnulífsins, menningargeirans og íþróttahreyfingarinnar, um framhald innanlandsaðgerða.
Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, sagði að almennar reglur um skólastarf verði útfærðar í samráði við skólasamfélagið. Fram undan séu fundir með stjórnendum innan skólakerfisins.