Fótbolti

Góður endurkomusigur West Ham gegn Newcastle

Smári Jökull Jónsson skrifar
Leikmenn West Ham fagna fjórða marki liðsins gegn Newcastle í dag
Leikmenn West Ham fagna fjórða marki liðsins gegn Newcastle í dag Vísir/Getty

West Ham er komið á blað í ensku úrvalsdeildinni eftir góðan útisigur á Newcastle í dag. Heimamenn komust tvisvar yfir í leiknum en Lundúnaliðið tryggði sér sigur með góðum kafla í síðari hálfleik.

Reynsluboltarnir Steve Bruce og David Moyes voru mættir til leiks með sín lið í dag í þessum fjöruga leik á St.James Park í dag. West Ham átti góðu gengi að fagna á síðustu leiktíð á meðan Newcastle liðið hefur ekki riðið feitum hesti undanfarin ár.

Það voru hins vegar heimamenn sem komust yfir strax á 5.mínútu þegar Callum Wilson skoraði eftir frábæran undirbúning Allan Saint-Maximin sem fór illa með enska landsliðsmanninn Declan Rice áður en hann lagði upp markið.

Aaron Cresswell jafnaði metin fyrir West Ham á 18.mínútu en Jacob Murphy kom Newcastle yfir á ný fimm mínútum fyrir hálfleik og staðan 2-1 í leikhléi.

West Ham sneri hins vegar við taflinu á þrettán mínútna kafla í síðari hálfleiknum. Said Benrahma jafnaði á 53.mínútu og Tomas Soucek kom West Ham yfir á 63.mínútu þegar hann fylgdi eftir vítaspyrnu sem Freddie Woodman, markvörður Newcastle, hafði varið frá Michael Antonio.

Aðeins þremur mínútum síðar bætti Antonio svo fyrir vítaklúðrið þegar hann kom West Ham í 4-2 eftir sendingu frá Benrahma. Það urðu lokatölur leiksins og lærisveinar David Moyes fara því með þrjú stig heim til Lundúna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×