Fótbolti

Sjálfs­mark skráð á Elías sem fagnaði sigri

Sindri Sverrisson skrifar
Elías Rafn Ólafsson verður eflaust í landsliðshópnum sem valinn verður í þessari viku.
Elías Rafn Ólafsson verður eflaust í landsliðshópnum sem valinn verður í þessari viku. Getty/Craig Foy

Elías Rafn Ólafsson heldur áfram að verja mark Midtjylland en eftir þrjá leiki í röð án þess að hafa fengið á sig mark, þar af tvo í Evrópudeildinni, varð hann fyrir því óláni að skora sjálfsmark í dag.

Elías og félagar fögnuðu 4-2 sigri gegn Silkeborg í dag en lentu samt 1-0 undir eftir hálftíma leik, þegar föst spyrna Julius Lorents Nielsen úr þröngri stöðu fór af Elíasi og inn.

Midtjylland var þó fljótt að jafna metin og komið í 3-1 á 64. mínútu, og landaði sigri sem kom liðinu upp í 3. Sæti dönsku úrvalsdeildarinnar með 12 stig, stigi á eftir toppliði FCK.

Mikael á sigurbraut í Svíþjóð

Félagi Elíasar úr íslenska landsliðinu, Mikael Anderson, fagnaði einnig sigri í dag, í sænsku úrvalsdeildinni, þegar Djurgården vann 1-0 gegn Brommapojkarna.

Mikael lék allan leikinn fyrir Djurgården sem hefur ekki tapað síðan 13. júlí og aldrei tapað með Mikael í byrjunarliðinu. Liðið er í 8. sæti af 16 liðum sænsku úrvalsdeildarinnar, með 31 stig eftir 21 leik, en Brommapojkarna eru sæti neðar með aðeins 23 stig.

Jón Dagur í leit að fyrsta sigri

Í Þýskalandi var Jón Dagur Þorsteinsson í byrjunarliði Herthu Berlín í þýsku B-deildinni og spilaði fram á 67. mínútu, í markalausu jafntefli við Darmstadt á útivelli.

Hertha leitar því áfram að fyrsta sigri tímabilsins en liðið er með tvö stig eftir þrjár umferðir á meðan að Darmstadt er með sjö.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×