Innlent

Kafarar kanna að­stæður vegna olíu­mengunar frá El Grill­o

Atli Ísleifsson skrifar
Seyðisfjörður. El Grillo er 10 þúsund lesta breskt olíubirgðaskip sem var sökkt árið 1944 í árás þýskra flugvéla.
Seyðisfjörður. El Grillo er 10 þúsund lesta breskt olíubirgðaskip sem var sökkt árið 1944 í árás þýskra flugvéla. Vísir/Vilhelm

Kafarar á vegum Landhelgisgæslunnar munu í dag hefja skoðun og skrásetningu á flaki El Grillo sem liggur á botni Seyðisfjarðar. Ástæðan er að rannsaka umfang olíuleka úr tönkum og hvaða möguleikar séu í stöðunni til að koma í veg fyrir frekari leka.

Frá þessu segir í Morgunblaðinu í dag. Steypt var í op í einum tanki skipsins á síðasta ári eftir að olía lak upp á yfirborðið.

Haft er eftir Sigurði Ásgrímssyni, yfirmanni séraðgerða hjá Gæslunni, að þó væri vitað að vandamálið gæti orðið endurtekið sig. Þá segir að hann að möguleiki sé að aurskriðan sem féll á bæinn í lok síðasta árs og flóðbylgjan sem fylgdi kunni að hafa ýtt við skipinu.

El Grillo er 10 þúsund lesta breskt olíubirgðaskip sem var sökkt árið 1944 í árás þýskra flugvéla. Átta árum síðar var olíu dælt úr skipinu og aftur árið 2001 þegar rúm 60 tonn af hreinni olíu náðust úr því en útreikningar þá bentu til þess að 10 til 15 tonn af olíu sætu ennþá eftir í flakinu. Síðan hefur reynslan sýnt að olía leki úr flakinu þegar sjór hlýnar á sumrin.

Fjórir kafarar Landhelgisgæslunnar héldu austur í gær og hefja vinnu sína í dag. Að því starfi loknu munu fulltrúar Umhverfisstofnunar, Landhelgisgæslunnar og hafnaryfirvöld ræða saman til hvaða aðgerða sé best að grípa vegna lekans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×