Innlent

Heil­mikið púslu­spil en krakkarnir í Réttó mæta á mánu­daginn

Atli Ísleifsson skrifar
Margrét Sigfúsdóttir er skólastjóri í Réttarholtsskóla. Skólasetning í grunnskólum Reykjavíkurborgar er á mánudaginn.
Margrét Sigfúsdóttir er skólastjóri í Réttarholtsskóla. Skólasetning í grunnskólum Reykjavíkurborgar er á mánudaginn. Vísir/Vilhelm

Grípa hefur þurft til ýmissa ráðstafana til að tryggja að allir nemendur í Réttarholtsskóla í Reykjavík geti mætt þegar nýtt skólaár gengur í garð eftir helgi vegna framkvæmda við skólann sem nú standa yfir.

Margrét Sigfúsdóttir, skólastjóri Réttarholtsskóla, segir að verið sé að taka eina álmu skólahússins í gegn sem þýðir að ekki sé hægt að nýta fjórar kennslustofur á framkvæmdatímanum.

Margrét segir að áætlað sé að framkvæmdum verði lokið í október og þá verði hægt að taka stofurnar í gagnið á ný. Þangað til verði íþróttahúsið nýtt til kennslu auk einnar lausrar stofu á lóð skólans. Þá verði tónmenntakennslan einnig flutt og sú stofa nýtt til annarrar kennslu.

„Það er búið að leysa þetta svo það munu allir mæta í skólann á mánudaginn,“ segir Margrét í samtali við Vísi.

Réttarholtsskóli er safnskóli á unglingastigi, þar sem í eru nemendur í 8. til 10. bekk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×