Samtökin Útrýmingaruppreisnin (e. Extinction Rebellion) stóðu fyrir umfangsmiklum mótmælum sem ollu umferðartöfum í London í ellefu daga fyrir tveimur árum. Þau ætla að endurtaka leikinn í næstu viku og eiga mótmælin að beinast að fjármálahverfi borgarinnar.
Krafa samtakanna er að stjórnvöld grípi til skjótra aðgerða til að bregðast við loftslagsbreytingum af völdum manna til að hægt verði að komast hjá verstu afleiðingum þeirra. Þau telja fjármálafyrirtæki taka þátt í að knýja loftslagsbreytingar.
Reuters-fréttastofan segir að lögregluyfirvöld í London haldi því fram að mótmælin eigi eftir að draga kraft úr öðru starfi hennar og hægja á rannsóknum. Umhverfissamtökin vilja ekki gefa lögreglunni nákvæmar upplýsingar um fyrirtætlanir sínar.
Næsta stóra loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna fer fram í Glasgow í nóvember. Í nýrri vísindaskýrslu loftslagsnefndar þeirra var varað við því að farið yrði fram úr metnaðarfyllra markmiði Parísarsamkomulagsins um að takmarka hlýnun við 1,5°C strax á næsta áratug. Þar kom einnig fram aukin vissa fyrir því að áframhaldandi hlýnun fylgi tíðari og ákafari aftakaatburðir eins og hitabylgjur, þurrkar og flóð víðsvegar á jörðinni.