Ty Garbin, sem er 25 ára gamall, er fyrstur samsærismannanna sem hlýtur dóm vegna fyrirætlana hópsins um að ræna Whitmer úr sumarhúsi hennar. Nokkrir mannana tilheyra vopnaðri sveit manna sem eru andsnúnir alríkisstjórn Bandaríkjanna.
Sex manns hafa verið ákærðir fyrir alríkisdómstól vegna ráðabruggsins en Garbin er sá eini sem hefur lýst sig sekan til þessa. Sjö aðrir sæta ákærum fyrir hryðjuverk og skipulagða glæpastarfsemi fyrir ríkisdómstól í Michigan, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.
Til harðra mótmæla kom í ríkishöfuðborginni Lansing gegn sóttvarnatakmörkunum Whitmer í fyrra. Sumir mótmælendanna líktu Whitmer við nasistaleiðtogann Adolf Hitler. Donald Trump, þáverandi forseti, hvatti mótmælendurna til dáða, meðal annars með því að tísta „FRELSIÐ MICHIGAN“.

Lögmenn Garbin sögðu fyrir dómi að honum hefði gramist sóttvarnaaðgerðirnar eftir að hann missti vinnuna sem flugvirki. Lýsti Garbin því hvernig mennirnir hefðu æft sig fyrir mannránstilraunina á landareign hans. Þeir hafi meðal annars reist eftirlíkingu af sumarhúsi Whitmer sem þeir réðust á með skotvopnum.
Hann bað Whitmer afsökunar á að hafa valdið henni og fjölskyldu henni ótta og streitu. Whitmer sjálf sagði að hún sæti enn hótunum.
„Ég hef litið út um gluggann og séð stóra hópa þungvopnaðs fólks nokkra metra frá heimili mínu. Ég hef séð eftirlíkingar af mér hengdar í snöru. Fyrir nokkrum dögum var skilti á mótmælum þar sem var kallað eftir að „nornin væri brennd“,“ sagði Whitmer í yfirlýsingu sem var lögð fyrir dóminn.