Þetta kemur fram í bréfi fjármála- og áhættustýringarsviðs sem lagt var fyrir borgarráð í síðustu viku. Innifalið í leiguverðinu eru húsgögn, hiti, rafmagn, hiti og húsvarsla.
Húsnæðið sem borgin mun nýta undir kennslu er 475 fermetrar, en hús Hjálpræðishersins stendur við Suðurlandsbraut 72.
Húsnæðið er tekið á leigu frá og með 23. ágúst til 17. september 2021 með möguleika á framlengingu, segir í bréfinu.
Málefni Fossvogsskóla hafa mikið verið í deiglunni síðustu misserin vegna myglu í skólanum. Til stóð að kennsla yngstu árganganna færi fram í Víkingsheimilinu í Fossvogi, en hætt var við það í kjölfar mótmæla foreldrafélags skólans. Varð úr að skólinn fékk inni tímabundið hjá Hjálpræðishernum.
Áframhaldandi óvissa
Í fundargerð borgarráðs segir að borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafi látið bóka að húsnæðisvanda Fossvogsskóla ætli seint að linna.
„Borginni tókst ekki að útvega nothæft húsnæði fyrir kennslu í upphafi skólaárs þrátt fyrir að hafa haft langan tíma til undirbúnings og eytt yfir 500 milljónum í viðgerðir sem dugðu ekki til. Um lengri tíma hefur skólastarf verið í uppnámi. Borgin þarf nú að leita á náðir Hjálpræðishersins sem skýtur skjólshúsi yfir skólastarfið. Enn er óljóst hvenær skólastarf verður með eðlilegum hætti og áframhaldandi óvissa,“ segir í bókun Sjálfstæðismanna.