Brenna hefur skorað þrettán mörk í fjórtán deildarleikjum í sumar og er með tveggja marka forskot á Valskonuna Elínu Mettu Jensen í baráttunni um gullskóinn. Þá skoraði hún tvö mörk í tveimur leikjum í Mjólkurbikarnum.
Hin 24 ára Brenna kom til Selfoss frá Boavista í Portúgal fyrir þetta tímabil. Hún lék með ÍBV seinni hluta sumars 2019 og skoraði þá sex mörk í níu deildarleikjum.
Í fréttatilkynningu frá Selfossi kveðst Brenna kunna afar vel við sig á Selfossi og er ánægð með að hafa skrifað undir nýjan samning.
„Þetta er búið að vera gott tímabil. Selfoss er frábært félag með jafnvel enn betra samfélag á bakvið sig. Ég er mjög spennt fyrir því að framlengja samninginn minn á stað sem mér finnst vera eins og heimili að heiman. Ég get ekki beðið eftir því að byggja ofan á það sem við höfum gert á þessu tímabili,“ sagði Brenna.
Selfyssingar eru í 4. sæti Pepsi Max-deildarinnar með 25 stig. Selfoss fær botnlið Tindastóls í heimsókn á laugardaginn og mætir svo Íslandsmeisturum Vals í lokaumferðinni sunnudaginn 12. september.
Alfreð Elías Jóhannsson lætur af störfum hjá Selfossi eftir tímabilið. Hann hefur stýrt því undanfarin fimm ár.

Pepsi Max deild kvenna er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Pepsi Max deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.