Fótbolti

Jóhann Berg og Ilkay Gündoğan í sama flokki

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Ilkay Gündoğan og Jóhann Berg eiga allavega einn hlut sameiginlegan þessa dagana.
Ilkay Gündoğan og Jóhann Berg eiga allavega einn hlut sameiginlegan þessa dagana. Vísir/Vilhelm/Getty

Íslenski landsliðsmaðurinn Jóhann Berg Guðmundsson og þýski landsliðsmaðurinn Ilkay Gündoğan eru í sama flokki þegar lið þeirra hafa leikið fimm leiki í undankeppni HM 2022 sem fram fer í Katar.

Ísland og Þýskaland mætast á Laugardalsvelli annað kvöld í undankeppni HM. Þjóðverjar tróna á toppi J-riðils með fjóra sigra og eitt tap í fimm leikjum til þessa. Ísland er í 5. sæti riðilsins með einn sigur, eitt jafntefli og þrjú töp í leikjunum fimm.

Jóhann Berg, vængmaður sem leikur með Burnley í ensku úrvalsdeildinni, og Gündoğan, miðjumaður Englandsmeistara Manchester City og Þýskalands, eru einkar ólíkir leikmenn. Þrátt fyrir það þá deila þeir einum tölfræðiþætti saman er kemur að undankeppni HM til þessa.

Báðir leikmenn hafa gefið 13 lykilsendingar í undankeppninni en hvorugur hefur þó náð að leggja upp mark. Gündoğan hefur hins vegar skorað tvö af 13 mörkum Þýskalands á meðan Jóhann Berg hefur ekki enn komist á blað.

Gündoğan hefur spilað rúmlega 380 mínútur í leikjum Þýskalands til þessa á meðan Jóhann Berg hefur hins vegar spilað aðeins 230 mínútur. Hann var ekki í leikmannahópi Íslands í 2-2 jafnteflinu gegn Norður-Makedóníu og þá spilaði hann ekki í 3-0 tapi Íslands gegn Þýskalandi í upphafi undankeppninnar.

Nú er bara að bíða og sjá hvort þeir félagar fái tækifæri til að leggja upp sitt fyrsta mark í undankeppninni er Ísland tekur á móti Þýskalandi annað kvöld. Leikurinn hefst klukkan 18.45 og verður í beinni textalýsingu hér á Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×