Þessi breyting gjörbreytir stöðu barna með skarð í gómi, en foreldrar þeirra hafa lengi staðið í stappi við Sjúkratryggingar Íslands sem hafa ekki viljað taka þátt í nauðsynlegum tannréttingakostnaði.
„Við áttum ekki rétt á neinu,“ segir Rakel Theodórsdóttir, móðir Bergs Páls, átta ára drengs með skarð í gómi. Hún segir að með þessari reglugerðarbreytingu sé „loksins verið að vinda ofan af mismunun milli barna með fæðingargalla“.
„Þarna var verið að flokka börn með viðurkenndan fæðingargalla eftir því hvar fæðingargallinn var.“
Svandís fyrst til að sýna málinu áhuga
Rakel segir að þetta hafi verið löng barátta. Svandís hafi verið fyrsti ráðherrann sem hafi sýnt málinu áhuga og komið á reglugerð sem tók gildi í upphafi árs 2020, þar sem kveðið var á um endurgreiðslur barna með skarð í gómi. Sjúkratryggingar hafi hins vegar ekki vikið frá sinni afstöðu.
„Við vorum endalaust send í mat. Það var niðurstaðan að málið [kostnaður þessa hóps vegna tannréttinga] sé brýnt, en samt segja Sjúkratryggingar að við eigum ekki rétt á greiðsluþátttöku,“ segir Rakel. „Við kærum það til úrskurðarnefndar velferðarmála, sem dæma okkur í hag og málið er sent aftur á Sjúkratryggingar Íslands. Þar fundu þau sér bara áfram glufur til þess að takmarka greiðslur til okkar.“
„Þetta hefur alfarið staðið upp á Sjúkratryggingar og bitnar ekki á neinum nema langveikum börnum og fjölskyldum þeirra.“
Pattstaða þar til fyrir tveimur vikum
Málið hafi verið í pattstöðu þangað til fyrir um tveimur vikum þegar ráðherra hafi gengið aftur í málið.
„Nú er þetta bráðabirgðaákvæði komið inn í reglugerðina og málið algerlega skýrt. Við erum búin að senda inn reikninga til Sjúkratrygginga Íslands og ég fengið tilkynningu um að við fáum endurgreiðsluna í kringum helgina. Þannig að við ætlum að leyfa okkur að fagna.“