Í fréttum Stöðvar 2 voru sýndar myndir frá verkinu. Það var um þetta leyti í fyrra sem starfsmenn Íslenskra aðalverktaka hófu vegagerðina í Penningsdal ofan Flókalundar og um Þverdal en þar fer Vestfjarðavegur upp á Dynjandisheiði.

„Okkur fannst nú svona fullseint farið af stað inni í haustinu og það þurfti mikið að ske yfir vetrartímann. Það tókst ágætlega,“ segir Bjarki Laxdal, sem er verkstjóri ÍAV á Dynjandisheiði.
Á kaflanum við Þverdalsá liggur nýtt vegstæði ofan þess gamla og þar er búið að sprengja gríðarlegt magn úr hlíðinni.

„Þetta er ansi mikil vegagerð og meiri í raunveruleikanum heldur en lítur út á pappír.“
-Og krefjandi?
„Þetta er mikið um sprengivinnu. Nánast öll fylling er sprengd og þetta er ekki flatlendisvegagerð,“ segir Bjarki.
Það var svo í byrjun þessa árs sem starfsmenn Suðurverks, sem undirverktaka ÍAV, hófust handa við hinn verkhlutann, kafla í Arnarfirði milli Mjólkárvirkjunar og Dynjanda. Þar færist vegurinn úr fjallshlíðinni og niður undir sjávarmál.

„Þeir eru búnir að leggja fyllingu og eru að keyra út styrktarlög og gera sig klára í klæðningu.“
Upphaflega var gert ráð fyrir að kaflarnir tveir yrðu alls tíu kílómetra langir. Breytt hönnun vegarins við Þverdalsá leiddi að sögn Bjarka til magnaukningar og þurfti að finna stað til að koma viðbótarefninu fyrir. Því hafi verið ákveðið að lengja veginn sem nam magnaukningunni.
„Svo kom viðbót líka; að taka inn gatnamótin niður til Bíldudals og fara alveg upp að Norðdalsá.“

Þannig bætast um 2,5 kílómetrar við verkáfangann sem verður alls 12,5 kílómetra langur, þar af 650 metrar á nýjum Bíldudalsvegi. Gatnamótin til Bíldudals færast jafnframt um 300 metrum sunnar.
Yfir fjörutíu manns vinna að vegagerðinni þessa dagana, 27 hjá ÍAV og 15 hjá Suðurverki. Þeir stefna að því að vegfarendur geti ekið báða kaflana á slitlagi fyrir veturinn.
„Það er nú eins og alltaf; að kóngur vill sigla en byr mun ráða. Þetta ræðst nú svolítið af tíðarfari og veðri. Ég vonast til að það verði bara mjög fljótlega í október að menn komast allavega hér upp allan Pennusneiðinginn á slitlagi.“

Kaflinn í Arnarfirði verður þó jafnvel fyrr.
„Líklega verður búið að leggja á hann áður en við tökum þennan,“ segir Bjarki Laxdal, staddur við Þverdalsá.
„Við skulum segja að þetta er upphafið að stórum samgöngubótum, að klára Dynjandisheiðina,“ segir verkstjórinn.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: