Á vef Veðurstofunnar segir að í dag sé útlit fyrir vestlæga átt, yfirleitt á bilinu átta til þrettán metra á sekúndu. Skúrir eða slydduél í flestum landshlutum og vindur geti aukist tímabundið meðan á hryðjunum standi. Hiti á landinu verður á bilinu tvö til átta stig í dag.
„Í kvöld lægir og léttir til á sunnan- og vestanverðu landinu og kólnar allvíða niður að frostmarki og þá getur myndast hálka á vegum. Það eru jafndægur á hausti í dag og kominn sá tími þegar vera þarf á varðbergi gagnvart hálku.
Á morgun nálgast lægð úr suðvestri og fer miðja hennar yfir landið. Þá má búast við austlægri og síðar breytilegri átt 5-13 m/s með rigningu. Á Norður- og Austurlandi verður þurrt þangað til síðdegis, en þá fer einnig að rigna þar og slydda á heiðum. Hiti 2 til 9 stig, mildast við suðurströndina.
Dregur síðan úr vindi og úrkomu á föstudag. Á laugardag nálgast síðan enn ein lægðin, og má því gera ráð fyrir að kosningadagurinn verði vinda- og vætusamur,“ segir á vef Veðurstofunnar.

Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á fimmtudag: Austlæg og síðar breytileg átt 5-13 m/s og rigning, en þurrt á Norður- og Austurlandi þangað til síðdegis. Slydda á heiðum á norðanverðu landinu. Hiti 2 til 9 stig, mildast við suðurströndina.
Á föstudag: Austlæg eða breytileg átt 3-10. Skýjað og lítilsháttar væta í flestum landshlutum. Hiti breytist lítið.
Á laugardag: Austan 10-18 og víða rigning, en slydda á heiðum norðantil á landinu. Hiti 2 til 10 stig, hlýjast á Suðurlandi.
Á sunnudag: Stíf suðaustan- og austanátt. Rigning suðaustanlands, en lítilsháttar væta um landið vestan- og norðanvert. Hiti 8 til 16 stig, hlýjast á Suðvesturlandi.
Á mánudag og þriðjudag: Útlit fyrir austlæga átt. Væta af og til á austanverðu landinu. Þurrt og bjart með köflum vestantil og hlýtt þar.